Í nógu hefur verið að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er degi en meðal annars þurfti hún að hafa afskipti af einstaklingi sem truflaði störf Neyðarlínunnar og Fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra.
Í dagbók lögreglunnar segir að meðal verkefna á lögreglustöð 1, sem sér um löggæslu á Seltjarnarnesi og mið-, vestur- og austurbæ Reykjavíkur, hafi verið óskað var aðstoðar lögreglu vegna aðila sem komið hafi inn í húsnæði fyrirtækis og haft í hótunum við starfsfólk og hafi því verið brugðið og það óttaslegið. Er lögregla hafi komið á vettvang hafi einstaklingurinn verið farinn en vitað sé hver viðkomandi er og málið sé í rannsókn. Einnig kemur fram að óskað hafi verið aðstoðar lögreglu vegna fundar á byssuskoti á leikvelli. Byssuskotið hafi verið haldlagt. Um þá truflun sem getið var um í upphafi þessarar fréttar segir í tilkynningunni:
„Lögregla hafði afskipti af einstaklingi sem hafði truflandi áhrif á starfsemi Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra og Neyðarlínu. Háttsemi einstaklingsins slík að hún var farin að valda truflunum á fjarskiptum en slíkt er bannað með lögum.“
Í hverju þessi truflun fólst og hver háttsemi viðkomandi var kemur hins vegar ekki fram í tilkynningunni.
Í tveimur tilfellum þurfti lögreglan að stöðva hávaðasamar framkvæmdir á grundvelli þess að þær eru bannaðar á helgidögum. Meðal annarra verkefna var síðan að óskað var aðstoðar við sundlaug þar sem tilkynnt var um aðila sem köstuðu grjóti yfir girðingu en grjótið hafi hafnaði nærri sundlaugargestum ofan í sundlauginni. Aðilarnir hafi hins vegar verið farnir þegar lögregla kom á vettvang.