Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir tvö brot á hegningar- og umferðarlögum.
Annars vegar er maðurinn sakaður um að hafa fimmtudaginn 29. febrúar 2024 ekið bíl, sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og ófær um að stjórna bílum vegna áhrifa ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja í blóði. Hafi hann ekið án nægjanlegrar tillitssemi og varúðar austur Reykjanesbraut, skammt frá Álverinu í Straumsvík, fram úr bíl yfir óbrotna miðlínu þannig að ökumaður bílsins þurfti að víkja skyndilega til að forðast árekstur. Með þessari háttsemi sinni hafi ákærði stofnað á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu ökumanns hins bílsins, sem og annarra vegfarenda á akstursleið ákærða, í augljósan háska.
Akstur ákærða var stöðvaður skömmu síðar á Reykjanesbraut, skammt frá Hlíðartorgi í Hafnarfirði, og hann handtekinn.
Hins vegar er maðurinn ákærður vegna háttsemi sinnar í umferðinni föstudaginn 29. mars 2024. Hann ók þá bíl sviptur ökurétti undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna og slævandi lyfja. Hann hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu sem reyndi að stöðva aksturinn með forgangsljósum lögreglubíls og hófst þá eftirför lögreglu.
Lögregla elti menninn suður Reykjanesbraut og inn í Hafnarfjörð og mældist hraðinn 146 km á klukkustund. Hann var síðan handtekinn við Öldugötu eftir að hafa lagt bílnum þar.
„Með akstrinum raskaði ákærði umferðaröryggi í alfaraleið og stofnaði á ófyrirleitinn hátt lífi og heilsu vegfarenda á akstursleið ákærða í augljósan háska, þar á meðal lögreglumanna sem reyndu að stöðva hann,“ segir í ákærunni.
Málið verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness þann 22. apríl.