Nýlega var ónefndur maður sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að hafa á þriggja ára tímabili beitt þáverandi stjúpsyni sína tvo, á barnsaldri, ítrekað bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi. Maðurinn var þó sýknaður af hluta ákærunnar sem hljóðaði upp á að ofbeldið hafi staðið yfir í sex ár.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa á umræddu tímabili ítrekað beitt eldri drenginn líkamlegu ofbeldi meðal annars með því að slá hann með vírbursta í bakið, grípa um háls hans og lyfta honum upp, henda í hann námsbók, ítrekað rassskella hann, ítrekað rífa hann upp á hálsmálinu og ítrekað grípa í hann og henda honum til.
Samkvæmt næsta ákærulið beitti maðurinn á þessu sex ára tímabili eldri drenginn, ítrekað andlegu ofbeldi, öskraði á hann, gerði lítið úr honum, talaði niður til hans, talaði til hans með niðrandi hætti, reif í sundur mynd sem hann gerði í skólanum og auk þess hótaði honum að allt yrði verra ef hann segði frá því líkamlega og andlega ofbeldi sem maðurinn beitti hann.
Þegar kom að yngri drengnum var maðurinn ákærður fyrir að hafa sömuleiðis á þessu sama sex ára tímabili ítrekað beitt hann líkamlegu og andlegu ofbeldi. Samkvæmt ákærunni fólst líkamlega ofbeldið meðal annars í að ýta drengnum niður stiga, sparka í hann með hnénu, hrinda honum niður af kommóðu, hrækja á hann, ítrekað grípa um háls hans, ítrekað rassskella hann, ítrekað rífa hann upp á hálsmálinu og ítrekað grípa í hann og henda honum til.
Einnig var maðurinn ákærður fyrir að beita eldri drenginn ofbeldi oft í viðurvist hins yngri.
Hvað varðar andlegt ofbeldi gegn yngri drengnum var maðurinn ákærður fyrir að hafa á umræddu tímabili margsinnis öskrað á hann, gert lítið úr honum, talað til hans með niðrandi hætti, bannað honum að segja móður hans frá því líkamlega og andlega ofbeldi sem maðurinn beitti hann og sagt við drenginn að hann yrði mjög reiður ef drengurinn segði frá ofbeldinu.
Fram kemur kemur að afleiðingar ofbeldisins hafi verið þær að drengirnir glími báðir við áfallastreituröskun og sá eldri við sjálfsvígshugsanir.
Í niðurstöðuhluta dóms Héraðsdóms Reykjaness er lagalegur grundvöllur málsins rakinn með afar ítarlegum hætti. Þar er minnt á að ákvæði í hegningarlögum um refsingu fyrir ítrekað ofbeldi í nánum samböndum, sem maðurinn var ákærður fyrir, á löngu tímabili hafi tekið gildi árið 2016.
Ákæran tók til atvika á árunum 2013-2019 en dómurinn segir skorta á í ákærunni undir hvaða ákvæði hegningarlaga, fyrir gildistöku umrædds ákvæðis í apríl 2016, háttsemi mannsins hafi fallið. Það sé forsenda þess að ákveða refsingu. Því verði að sýkna manninn af brotum gegn þessu ákvæði hegningarlaga á tímabilinu 2013 og fram til apríl 2016.
Segir í dómnum að þar sem engin læknisfræðileg samtímagögn um áverka eða vanlíðan drengjanna á umræddu tímabili liggi fyrir sé ekki öðrum sönnunargögnum til að dreifa en framburðum þeirra og vitna.
Dómurinn segir framburði drengjanna um langvarandi andlegt og líkamlegt ofbeldi mannsins í þeirra garð vera trúverðuga og samræmis gæti í frásögnum þeirra.
Segir dómurinn framburði vitna, félagsráðgjafa og fjölskyldumeðlima, renna stoðum undir frásagnir þeirra.
Dómurinn telur hins vegar framburð mannsins, sem neitaði öllu, vera ótrúverðugan og segir ekkert styðja fullyrðingar hans um að móðir drengjanna hafi fengið þá til að saka hann um ofbeldi í fjárhagslegum tilgangi.
Dómurinn segir hins vegar að í ákæru komi ekki fram nákvæmlega hvenær þau tilteknu atvik sem nefnd eru sérstaklega í ákærunni hafi átt sér stað og vitnisburðir í málinu hafi ekki varpað frekara ljósi á það. Því sé ekki hægt að sakfella manninn fyrir það sérstaklega að hafa slegið eldri drenginn með vírbursta í bakið, gripið um háls hans og lyft honum upp og hent í hann námsbók eða fyrir að hafa rifið í sundur mynd sem hann gerði í skólanum. Sömuleiðis sé af þessum ástæðum ekki hægt að sakfella manninn sérstaklega fyrir að hafa ýtt yngri drengnum niður stiga, sparkað í hann með hnénu, hrint honum niður af kommóðu og hrækt á hann.
Eins og áður segir sýknaði dómurinn manninn, vegna lagalegrar óvissu í ákæru, af brotum fyrir brot gegn drengjunum á tímabilinu frá 2013 og fram að gildistöku áðurnefnds ákvæðis hegningarlaga í apríl 2016.
Héraðsdómur Reykjaness telur hins vegar sannað af framburðum drengjanna og vitna að frá apríl 2016 og fram til þess að maðurinn og móðir þeirra slitu samvistum í apríl 2019 hafi maðurinn eins og ákæran hafi kveðið á um ítrekað, endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað lífi, heilsu og velferð drengjanna, með líkamlegu og andlegu ofbeldi og með þeirri háttsemi sinni ítrekað misþyrmt og misboðið þeim þannig að líkamlegri og andlegri heilsu þeirra var hætta búin, sýnt af sér vanvirðandi háttsemi, ruddalegt og ósiðlegt athæfi gagnvart þeim, beitt þá líkamlegum refsingum, móðgað þá og sært.
Segir enn fremur í niðurstöðu dómsins:
„Brot ákærða stóðu yfir í langan tíma og misnotaði hann freklega yfirburðastöðu sína gagnvart saklausum börnum. Með framferði sínu skapaði ákærði ógnarástand á heimilinu þar sem drengirnir máttu búast við ofbeldi af hans hálfu svo til hvenær sem var. Er ekki séð fyrir endann á því hve alvarleg áhrif framferði hans muni hafa á sálarlíf þeirra.“
Á grundvelli ákvæða hegningarlaga og þess að maðurinn er sakfelldur fyrir að beita drengina ofbeldi reglulega á þriggja ára tímabili þótti við hæfi að dæma hann í 12 mánaða fangelsi. Þarf maðurinn sömuleiðis að greiða drengjunum hvorum um sig eina og hálfa milljón króna í miskabætur auk vaxta og dráttarvaxta.