fbpx
Laugardagur 19.apríl 2025
Fréttir

„Raunveruleikinn virðist vera sá að það vantar peninga í ríkissjóð“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 16. apríl 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Raunveruleikinn virðist vera sá að það vantar peninga í ríkissjóð og það er leitað allra leiða til að auka tekjur, án þess að það sé kallað skattahækkun. En þetta er skattahækkun. Og hún er bæði ósanngjörn og illa ígrunduð,“

segir Val­geir Magnús­son viðskipta-og hag­fræðing­ur um sam­skött­un, þar sem hann velt­ir því fyr­ir sér hvort sam­skött­un sé sann­gjörn. 

Valgeir segir að það hafi vakið undrun hans þegar „fjár­málaráðherra, sem að mörgu leyti er að gera góða hluti, hélt því fram að það að leggja af sam­skött­un para myndi nán­ast ein­göngu hafa áhrif á há­tekju­fólk, aðallega karla, og að því væri þetta allt í lagi og kallaðist ekki skatta­hækk­un. Hér finnst mér grund­vall­ar­spurn­ing­in sú hvort heim­ili með mjög mis­jafn­ar tekj­ur á milli ein­stak­linga eigi að greiða meira til sam­fé­lags­ins en heim­ili með jafn­ari tekju­skipt­ingu en sömu heild­ar­tekj­ur. Af hverju ætti það að vera þannig?“

Í grein sinni tekur Valgeir saman raun­veru­leg dæmi þriggja heim­ila og skoðar hvaða áhrif þessi breyt­ing mun hafa á þau. Tekj­ur í dæmun­um eru skatt­stofn ein­stak­ling­anna, líkt og reikni­vél fjár­málaráðuneyt­is­ins miðar við og kall­ar „tekj­ur“.

Dæmi 1 (heimili 1) þar sem annar makinn er sölumanneskja og hinn leikskólaliði. Sölumanneskjunni hefur gengið vel og er með að meðaltali 1.974.000 kr. á mánuði. Það þykir flestum ansi góð laun. Hin manneskjan er með um 517.000 kr. á mánuði í leikskólanum, og því eru samanlagðar tekjur heimilisins um 2,5 milljónir á mánuði eða samtals 30 milljónir á ári.

Dæmi 2 (heimili 2) er með tvo viðskiptafræðinga þar sem báðir makar eru með á bilinu 1.200.000 til 1.300.000 kr. á mánuði, samtals um 2,5 milljónir á mánuði — sem sagt sömu heildartekjur og heimili 1.

Bæði heimilin eru með svipaðar aðstæður: tvö börn undir 12 ára og í eigin húsnæði.

Heimili 1 greiðir í dag 766.040 kr. í skatta á mánuði eftir endurgreiðslu vegna samsköttunar. Heimili 2 greiðir 751.159 kr. á mánuði sem þýðir að heimili 1 greiðir nú þegar 14.881 kr. meira. Eftir afnám samsköttunar mun staðan versna verulega fyrir heimili 1, sem mun greiða 801.445 kr. í tekjuskatt á mánuði, eða 50.285 kr. meira en heimili 2. Þetta er aukning upp á 424.848 kr. á ári, sem bætist ofan á núverandi hærri skattgreiðslu heimilisins, sem gerir samtals 603.432 kr. hærri árlega skattheimtu. Það munar um minna fyrir heimili með tvö börn undir 12 ára.

„Þá vaknar spurningin: Er sanngjarnt að heimili þar sem einstaklingar eru með svipaðar tekjur greiði minna til samfélagsins en heimili með sömu heildartekjur en meiri mismun á milli einstaklinga? Er það réttlætanlegt vegna þess að okkur finnst of mikið bil á milli tekna einstaklinganna? Og er eðlilegt að halda því fram að þetta hafi bara áhrif á hátekjufólk og því sé þetta ekki skattahækkun? Þetta hefur áhrif á alla á heimilinu, þar sem 424.000 kr. eru nú ekki lengur í sameiginlegan rekstur heimilisins. Þá ber einnig að nefna að heimili 1 hafði þegar minni rétt til tilfærslu tekna vegna þaksins sem er á slíkri tilfærslu og hefur því þegar verið að greiða hærri skatta en heimili 2 vegna þess.“

Er þetta jafnréttismál?

Valgeir segir að rök sem nefnd hafi verið fyrir afnámi samsköttunar séu að þetta sé jafnréttismál. 

„En á hvaða hátt er það jafnrétti kynjanna? Er öruggt að tekjuhærri einstaklingurinn sé karlkyns? Og þó svo sé, hvernig breytir það sanngirnismati í skattamálum? Er það ekki frekar ójafnrétti að fjölskyldur með sömu tekjur greiði mismikið í samfélagskostnað?“

Dæmi 3 (heimili 3). Þar er annar aðilinn fjármálaverkfræðingur með 1.457.000 kr. á mánuði og hinn vefhönnuður með 1.015.000 kr. samtals 2.472.200 kr. á mánuði, sem er tæplega 30.000 kr. lægra en hjá hinum heimilunum tveimur. Núverandi skattgreiðsla er 740.446 kr. á mánuði. Eftir breytingarnar verður hún 751.392 kr. — hækkun upp á rúmlega 11.000 kr. á mánuði, eða 131.346 kr. á ári. Þetta heimili er með lægri heildartekjur en heimili 2, en greiðir samt 232 kr. hærri skatt á mánuði. Það gengur varla upp.

„Í einu dæmanna er konan tekjuhærri. Í öðru eru báðir makar karlar. Og í því þriðja er karl tekjuhærri. Fullyrðingar um að þetta sé jafnréttismál falla því um sjálft sig.

Reglurnar í dag takmarka tilfærslu tekna með þaki upp á 400.000 kr. Þetta var ætlað til að skattleggja svokölluð ofurlaun betur — sem heimili 1 hafði þegar fundið fyrir. En með afnámi hagræðis vegna samsköttunar getur orðið að pör sem ekki fá vaxtabætur í dag gætu skyndilega átt rétt á þeim, ef þau skrá sig ekki lengur í samsköttun, til dæmis ef aðeins annar aðilinn er skráður fyrir húsnæðisláninu og 50% eignarhlut.

Sama gildir um barnabætur og önnur réttindi. Það gæti orðið niðurstaðan á heimili 1; fjölskylda sem áður þurfti engar bætur gæti skyndilega byrjað að þiggja þær. Og það væri ekki vegna breyttra aðstæðna heldur einfaldlega vegna breytinga á skattkerfinu.

Við sjáum því að þetta snýst ekki bara um hátekjufólk. Og ekki bara um karla. Þetta er skattahækkun sem bitnar sérstaklega á tilteknum hópi fólks, þ.e. 6% íbúa landsins, sem er andstæða við réttlæti og enn síður jafnrétti.“

Hvati til sambúðarskráningar hverfur

Valgeir bendir á aðra afleiðingu sem huga þurfi að

„Með afnámi hagræðis samsköttunar hverfur hvati til þess að fólk í sambúð skrái sig saman til samsköttunar. Það gæti haft í för með sér að fólk fari að endurmeta stöðu sína og hvort það yfirhöfuð borgi sig lengur að ganga í hjónaband og vera skyldað til samsköttunar.

Þetta er því ekki aðeins spurning um skatta, heldur um grundvallarbreytingar á hvötum í samfélaginu. Hvatar sem hafa hingað til stuðlað að sameiginlegri ábyrgð og réttindum innan fjölskyldueininga.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg

ÍR beið ósigur gegn Reykjavíkurborg
Fréttir
Í gær

Ökuníðingur dreginn fyrir dóm eftir skrautlega eftirför

Ökuníðingur dreginn fyrir dóm eftir skrautlega eftirför
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“

Guðmundur Ingi ver framhaldsskólafrumvarpið – „Ekki stendur til að hætta að líta til námsárangurs“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kona föst inni á salerni

Kona föst inni á salerni
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður á sjötugsaldri sparkaði í andlit lögreglumanns

Maður á sjötugsaldri sparkaði í andlit lögreglumanns
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Fluttu tæplega þúsund töflur af stórhættulegu efni til landsins

Fluttu tæplega þúsund töflur af stórhættulegu efni til landsins
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt virðist í skrúfunni hjá Faxaflóahöfnum – „Ólaf­ur ásak­ar mig um að vera hryðju­verkamaður“

Allt virðist í skrúfunni hjá Faxaflóahöfnum – „Ólaf­ur ásak­ar mig um að vera hryðju­verkamaður“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð