Harry Maguire varnarmaður Manchester United tekur upp hanskann fyrir Andre Onana sem hefur undanfarið fengið mikla gagnrýni.
Onana gerði tvö slæm mistök gegn Lyon í Evrópudeildinni í síðustu viku og var kastað úr hóp gegn Newcastle um helgina.
Onana kemur aftur inn í seinni leiknum gegn Lyon á morgun.
„Hann hefur sannað það að hann er frábær markvörður, hann hefur spilað í úrslitum Meistaradeildarinnar og unnið fjölda titla. Það eru ekki alltaf jólin á ferlinum og stundum ganga hlutirnir ekki upp,“ sagði Maguire.
„Hann er líklega á þeim stað að hugsa um að allt sé að fara í ranga átt, hann er sterkur karakter og vill sanna ágæti sitt.“
„Það er mjög gott að spila með Onana, ég hef mikla trú á honum. Hann hefur reynsluna og við vitum allir hjá félaginu að hann er frábær markvörður.“