Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar á Seltjarnarnesi, segir að bæjarstjórn Sjálfstæðisflokksins verði að horfast í augu við raunveruleikann og aukna þjónustukröfur og hækka útsvarið. Uppsafnaður halli sé orðinn 3 milljarðar króna og þörf á fjárfestingum til uppbyggingar.
Hjá flestum sveitarfélögum er útsvarið í hámarki, það er 14,97 prósent. Í ellefu sveitarfélögum er það lægra, þar á meðal á Seltjarnarnesi þar sem prósentan er 14,54.
„Á síðasta ári var mikið barnalán á Seltjarnarnesi og 2024 árgangurinn óvenju stór. En það leiðir af sér að erfiðara er að veita börnum pláss. Þar að auki hafa möguleika foreldra á því að koma börnum í einkaleikskóla annars staðar þrengst mjög og svo er ekkert dagforeldri starfandi á Seltjarnarnesi,“ segir Sigurþóra í aðsendri grein á Vísi í dag. „Þetta þýðir að foreldrar barna fædd eftir mars 2024 eru í vandræðum. Þau munu ekki koma börnum sínum í leikskóla fyrr en langt gengið í þriggja ára.“
Sigurþóra segir að það hafi verið ljóst árum saman að þörf sé á átaki í leikskólamálum á Seltjarnarnesi. Hún sé ekki ein um þá skoðun, Sjálfstæðismenn hafa haft það á stefnuskrá sinni fyrir þrjár síðustu sveitarstjórnarkosningar að byggja nýja og stærri leikskóla en það hefur ekki raungerst.
„Enn bólar ekkert á þessum leikskóla og bera menn fyrir sig ýmsar ástæður. Það var covid, það var verðbólgan, það var mygla í skólunum okkar. Ekkert af þessu er öðruvísi í öðrum sveitarfélögum um allt land. Þau hafa öll lent í slæmri myglu sem líkt og á Seltjarnarnesi, sem meðal annars kom til vegna sparnaðar í viðhaldi skólahúsnæðis,“ segir Sigurþóra.
Að mati Sigurþóru er vandinn í grunninn afstaða meirihlutans til rekstrar. Hún hafi skilað sífelldum hallarekstri undanfarin ár.
„Meirihluti Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi er haldinn sérkennilegri þráhyggju. Þau hafa rekið bæjarfélagið með halla síðustu 8 ár, uppsafnaður er hann yfir 3 milljarðar, samt halda þau í að rekstur lúti öðrum lögmálum en önnur sveitarfélög,“ segir hún. Bæjarstjórnin sé föst í gömlum tíma. „Hugmyndin er sú að einhvern vegin getum við rekið sveitarfélag nútímans eins og í gamla daga, með mun lægra útsvari þrátt fyrir að þjónustukrafan sé umtalsvert meiri en áður.“
Nefnir Sigurþóra að það hafi verið stöðug hnignun í þjónustu á Seltjarnarnesi á undanförnum árum. Meðal annars hafi ungmennastarf verið skert, skólarnir verið í svelti og viðhaldi ekki sinnt. Nefnir hún dæmi af Félagsheimili Seltjarnarness, sem hafi verið lokað vegna viðhalds í 5 ár og enn standi ekki til að klára það.
Hún segir vel hægt að leysa vandamálin og það frekar auðveldlega. Meðal annars hafi sveitarfélagið aðgang að húsnæði fyrir leikskóla og ungbarnaleikskóli gæti bætt við sig deild.
„En það er ekki hægt af því að við eigum engan pening á Seltjarnarnesi,“ segir hún að lokum. „Við eigum ekki pening af því að Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi eru í þrjóskukasti og vilja upp á líf og dauða ekki horfast í augu við raunveruleikann og viðurkenna að það þarf að hækka útsvarið. Við getum ekki rekið sveitarfélag með svo háu þjónustustigi, með enga aðra tekjur án þess að íbúar greiði sameiginlega sinn hlut í þeim rekstri. Bara líkt og flestir aðrir íbúar þessa lands gera. Annað er óskhyggja og mun ekki enda vel.“