Svo sem búast mátti við hefur umræðan um leiðréttingu veiðigjalda ekki farið fram hjá Svarthöfða. Það hefur heldur ekki farið fram hjá honum að Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS (áður LÍÚ)) eru heldur betur búin að taka upp pyngjuna og birta nú áróðursauglýsingar í gríð og erg í sjónvarpi til að verja helstu sérhagsmunastétt landsins, sjálfa gjafakvótaþegana.
Þá beita samtökin nú málgagni sínu, Morgunblaðinu og undirmiðlum þess, sem aldrei fyrr og nú birtist Svarthöfða og öðrum landsmönnum grímulaust ástæðan fyrir því að kvótaþegarnir telja það ekki eftir sér að reka þann miðil með stórtapi ár eftir ár eftir ár.
Í blaði dagsins er grein eftir Ragnar Árnason, aldraðan fyrrverandi prófessor, þar sem hann segir í stórum dráttum að aukin gjaldtaka af sjávarútveginum fyrir aðgang að þjóðarauðlindinni muni minnka þjóðartekjur, skerða lífskjör og grafa undan tekjuöflun ríkisins til lengri tíma. Harðast muni þetta þó lenda á íbúum hinna dreifðu byggða. Nefnir hann m.a. Vestfirði í þeim efnum. Já, auðvitað mega Vestfirðir ekki við fleiri áföllum eftir að stórútgerðin keypti upp togarana og kvótann þar og flutti til annarra landshluta. Svarthöfði kemst næstum við yfir þessari miklu umhyggju Ragnars fyrir velferð sjávarplássanna sem hafa þurft að horfa á eftir þeim gula í gin miskunnsama samherjans.
Kannski er Ragnar að finna aftur hjá sér gamla kommúnistann, sem í honum bjó á námsárunum í Háskóla Íslands og lengi vel eftir það, allt þar til hann gerðist sérstakur talsmaður hinna sterku í íslenskum sjávarútvegi. Kannski er hringferð hans nú lokið og hjarta hans aftur farið að slá með hinum hrjáðu en ekki þeim sem þá hrjá. Batnandi fólki er best að lifa.
Strax á næstu síðu er önnur grein um gjaldtöku í sjávarútvegi. Sú er eftir Örn Bárð Jónsson, sóknarprest í Hofsprestakalli. Hann kallar eftir réttlæti í Reykjavík. Þegar greinin er lesin kemur í ljós að hann er að kalla eftir réttlæti frá Reykjavík, frá Alþingi.
Hann bendir réttilega á að kvótinn er eign þjóðarinnar, okkar allra, og því er útgerðaraðallinn réttilega nefndur kvótaþegar vegna þess að þau hafa þegið kvótann til láns en ekki eignar. „Auðlindirnar eiga aðeins heima í höndum sanngjarnra og réttlátra einstaklinga og einungis til leigu og aldrei til eignar,“ skrifar klerkurinn.
Enn fremur skrifar hann: „ Þau, sem vilja lítið hafa með réttlæti að gera og sanngirni, eiga ekki að hafa nein sérstök völd umfram aðra, engin ítök, engin sérréttindi, engar auðlindir til að umgangast sem einkagóss, ekkert nema atkvæði sitt í kosningum – eins og við hin.“
Svarthöfði segir amen!