Af hverju er sjálfsagt að allir byrji að drekka einhvern tíma? Oft er talað um mikilvægi þess að fresta því sem lengst að unglingar smakki vín í fyrsta sinn en sjaldan spurt hvernig við getum séð til þess að börnin okkar láti áfengi alveg vera. Áfengislaus lífsstíll er eftirsóknarverður valkostur og samfélagið ætti að ræða mest um hvernig best sé að koma því til skila til barna og ungmenna.
Börnum með ADHD og aðrar greiningar hefur fjölgað mikið hér á landi líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Brugðist hefur verið við með því að gefa börnum lyf en vitað er að athyglisbrestur og jaðarsetning í æsku gerir börn móttækilegri fyrir neyslu vímugjafa. Víman veldur vellíðan og þau finna loks þessa tilfinningu að þau tilheyri, séu hluti af hópi og eins og aðrir. Mjög mismunandi er hvort vímuefnaneysla og hættur henni samfara séu ræddar inni á heimilum og þá á hvaða forsendum. Þeir foreldrar sem ekki eiga í vímuefnavanda hafa sjaldnast áhyggjur af börnum sínum og skynja því ekki þörfina fyrir umræðu af þessu tagi.
Margt stuðlar líka að því að áfengisneysla virki sjálfsögð og eðlileg í huga barna okkar. Í ótal mörgum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum kemur fullorðið fólk heim til sín að loknum vinnudegi og hellir áfengi í glas, sest með það til að slaka á yfir sjónvarpinu og nýtur þess greinilega að leyfa áhrifunum að streyma um sig. Þetta er sterk skilaboð. Það virðist einnig vera sjálfsagt að drekka vínglas með mat þótt menn séu á bíl eða á leið í vinnuna aftur. Af og til eru vissulega sýndar alvarlegar afleiðingar áfengisneyslu á fólk en þeir einstaklingar eru mun færri en hinir.
Greinin er úr nýjasta tölublaði Samhjálpar.
Börnin okkar ganga með aðgengi að ótrúlegum upplýsingum í vasanum. Síminn er ávallt innan seilingar og þar er að finna lofsöngva til fíkniefna, sungna af stórkostlegum tónlistarmönnum. Áfengisauglýsingar sem eru bannaðar hér á landi og myndbönd af fólki að skemmta sér í mjög mismunandi ástandi. Johann Hari setur fram athyglisverðar kenningar í bók sinni, Horfin athygli, Hvers vegna er svona erfitt að einbeita sér og hvað er til ráða?
Hann telur að tæknin og nútímalífshættir, mataræði, hreyfingarleysi, tengslaleysi við náttúruna, minni samskipti og skortur á áskorunum geri það að verkum að manneskjur séu að verða mun verr undir lífið búnar en fyrri kynslóðir. Johann styður mál sitt með því að vitna í fjölmargt fólk innan vísinda- og tæknigeirans sem hann tók viðtöl við meðan á vinnslu bókarinnar stóð.
Hann kynnti sér einnig rannsóknir í sálfræði og félagsvísindum, næringarfræði og læknisfræði. Allt ber að sama brunni. Nútímalífshættir eru manninum ekki hollir og verulegar líkur á að þeir séu að skapa okkur erfið og illviðráðanleg vandamál.
Hann byrjar á að rekja hvernig rannsóknir vísindamanna hafa sýnt að einbeitingartími fólks hefur styst umtalsvert síðustu áratugi. Það eru ekki bara börn sem finna fyrir auknum erfiðleikum með að halda athygli og einbeitingu í daglegu lífi. Johann bendir á að flest nútímafólk telji sig geta gert tvo og jafnvel þrjá hluti í einu, þetta sé kallað að multitaska en hann sýnir fram á að rannsóknir hafi sýnt að sá sem multitaskar geri alla hluti illa.
Hann sýnir einnig fram á hvernig samfélagsmiðlar eru beinlínis hannaðir til að draga fólk inn og halda því föstu. Fyrirtækin safna upplýsingum um okkur, áhugamál og það sem kveikir athygli okkar og sendir okkur meira af slíku og ekki bara meira heldur svæsnari dæmi í hvert og eitt sinn. Þekking á sálfræðilegri uppbyggingu mannsins er beinlínis notuð til þess að gera hann háðan tækninni, breyta hegðun hans, viðhorfum og gildum. Það er ekkert siðlegt við þær aðferðir sem tæknigeirinn beitir og það virðist ekki líklegt að neitt komi til með að stoppa þá á næstunni.
En hvað ef það yrði viðsnúningur á þessu? Ef áfengisdrykkja í kvikmyndum væri undantekning og sýnd sem óæskileg en ekki notaleg slökun? Hvað ef við myndum benda á þá sem velja að drekka ekki og dást að því hversu heilbrigt þetta fólk er bæði til sálar og líkama? Hvað ef fleiri kysu að drekka óáfenga drykki í veislum en áfenga? Foreldrar geta auðvitað sjálfir gengið fram með góðu fordæmi og sýnt að það er hægt að gleðjast og lifa innihaldsríku lífi án áfengis, jafnvel öðlast meiri og betri lífsfyllingu sé það látið vera. Þeir geta líka átt frumkvæði að umræðu um áfengisdrykkju og hvernig hún birtist í fjölmiðlum. Ekkert eflir nefnilega gagnrýna hugsun meira en samtal. Spyrja börnin: Heldur þú að þetta sé hollt? Að það sé gott að manneskja drekki vín á hverju kvöldi og mæti í vinnu næsta dag? Það má líka vara við eituráhrifunum sem ethanól hefur á mannslíkamann, ekki að hefja drykkju til skýjanna og tala um að hóflega drukkið vín gleðji mannsins hjarta. Áfengi skaðar heilsuna í hvaða magni sem þess er neytt. Kokteilglasið er í dag jafn töff og sígarettan í munnstykkinu var einu sinni. En þannig þarf það ekki að vera. Kokteillinn er fallegur á litinn rétt eins og margir aðrir eitraðir vökvar. Ræðum um það en ekki hversu freistandi víman er. Með því móti er ungu fólki skapaður raunverulegur vettvangur til að velja hollari kostinn, áfengislausan lífsstíl.