Finnbjörn Hvanndal Finnbjörnsson leitaði lausnar frá vanlíðan og sársauka í vímuefnum. Hann þorði lengi vel ekki að sleppa hendinni af þeim, af þessari einu fró sem hann hafði fundið gegn sársaukanum. En svo fór hann að spyrja Guð og fékk svör, það voru ekki alltaf svörin sem hann bjóst við og ekki alltaf þau sem hann vildi helst fá en reyndust ávallt vera honum fyrir bestu þegar upp var staðið.
Hver er forsaga þín, hvernig stóð á að þú endaðir í meðferð á Hlaðgerðarkoti?
„Ég var í neyslu frá því ég var svona fimmtán, sextán ára,“ segir hann. „Þá byrjaði ég að drekka, í raun til þess að bara líða eðlilega. Ég flutti til Danmerkur með foreldrum mínum þegar ég var fimm að verða sex ára og bjó í Damörku næstu sex árin. Það voru yndislegustu ár ævi minnar. Mér fannst ég þroskast og dafna, mér leið vel, var vinmargur og vinsæll. Ég var í fótbolta og það var bara lífið. Svo kom að því að pabbi og mamma þurftu að flytja heim og ég man eftir mér sitjandi aftur í bílnum á leið á flugvöllinn, horfandi út um afturrúðuna á vini mína og allt sem ég var að kveðja. Það fylgdi þessu mikil sorg.
Ég kom hingað til Íslands og var svolítið utangátta, talaði málið þokkalega en var pínulítið eftir á í lærdómnum. Fótboltinn var líka einhvern veginn allt öðruvísi hér en úti og ég flosnaði upp úr því. Ég kom frá Danmörku þar sem voru risastórir, flottir grænir vellir og nokkrir þjálfarar með hvert lið. En hér var spilað á malarvelli, skítaveður og einhver pabbi var þjálfari og strákarnir að rífast út í það óendanlega. Mér fannst þetta alveg galið. Eftir á að hyggja skapaði þetta ákveðið rótleysi og var ofsalega mikið áfall fyrir mig tólf ára gamlan. Það var einhvern veginn öllu kippt undan mér. Þegar ég hugsa um það hvað varð til að ég fór að drekka og nota vímuefni leitar hugurinn að þessu mómenti, þegar allt sem var mér kunnuglegt hvarf.“
Finnbjörn er í viðtali við Steingerði Steinarsdóttur í nýjasta blaði Samhjálpar.
Upp frá þessu fór Finnbjörn að endurskoða allt í lífi sínu. Hann valdi aðra vini og félaga og gaf fótboltann upp á bátinn þrátt fyrir að elska þá íþrótt.
„Í kringum fimmtán ára aldurinn kynntist ég strákum í hljómsveit og við fórum aðeins að fikta í áfengi. Það vatt hratt upp á sig og ég fór fljótlega að drekka mikið, eiginlega í hvert skipti sem ég gat. Svo kom að því, eins og allir sem hafa prófað að fara þessa leið kannast við, að maður stendur á krossgötum og þarf að spyrja sig: Á ég að halda áfram? Neyslan var farin að taka toll. Maður kemur að þessum gatnamótum oft á leiðinni en alltaf svaraði ég með því að breyta einhverju.
Ég fór að nota önnur efni með áfenginu, fyrst amfetamín og MDMA. Í hvert sinn leið mér eins og ég væri að finna upp hjólið og ég skildi ekki af hverju fólk hafði ekki sagt mér frá því að mér gæti liðið svona. Í mínu venjulega lífi leið mér ekki vel, mér leið óþægilega innra með mér, fannst ég ekki passa almennilega inn í, var hræddur og félagsfælinn. Ég þorði ekki að segja það sem mig langaði að segja, þorði ekki að taka þátt í því sem mig langaði að vera með í og var bara í fangelsi inni í mínum eigin ótta. Það var aldrei val að taka skref til baka, hætta eða minnka. Það var á þessum tíma sem ég kynnist því efni sem algjörlega yfirtók líf mitt og það var kókaín. Á því efni fannst mér ég geta fúnkerað algjörlega.“
Í tíu ár af þeim fimmtán sem Finnbjörn var í neyslu segist hann hafa barið höfðinu við steininn og reynt með öllum ráðum að láta þetta ganga.
„Ég stal peningum frá fyrirtæki sem ég vann hjá, stal kortunum hennar mömmu og tók út af þeim peninga. Það var ekkert sem kom í veg fyrir að ég næði mér í meiri efni. Mamma kom til mín og spurði: „Ertu búinn að vera að taka peninga út af kortunum mínum?“ „Nei, nei,“ svaraði ég. En þá dró hún upp mynd tekna í hraðbanka af mér að taka út. Hún hafði farið niður í banka og fengið myndina. Þá féll öll spilaborgin í fyrsta skipti. Ég hafði verið svo góður í að halda þessu leyndu en þarna þurfti ég að horfast í augu við að fólk vissi hversu langt leiddur alkóhólisti ég var orðinn,“ segir hann.
„Það lá í augum uppi að ég þurfti að fara í meðferð. Mig langaði ekki til þess en ég fór í meðferðina því ég vildi ekki að fara í fangelsi. Þetta var frekar mikið sjokk fyrir mig því ég hafði ekki komist í kast við lögin og líka að nú gat ég ekki lengur logið til að fegra ástandið. Í fyrsta viðtali í meðferðinni var ég spurður út í hvað ég notaði mikið. Ég svaraði því og hún horfði eitthvað skringilega á mig svo ég spurði: „Hva, finnst þér það mikið?“ Hún spurði á móti: „Finnst þér það ekki mikið?“ Hvernig hún sagði þetta hitti mig einhvern veginn og í fyrsta skipti fór ég að velta fyrir mér hvort ég væri með gallaða sýn á hversu mikið ég notaði. Fram að því hafði ég aldrei leitt hugann að því og ekki fundist ég vera með neitt vandamál. Ég var bara að fara í meðferð til að friða aðra. Og eins og sannur alkóhólisti þegar hann heyrir þessar fréttir fór ég inn í meðferðina með þá fullvissu að ég þyrfti bara að nota minna.“
Þarna hafði Finnbjörn glímt við fíknina í um það bil fimm ár. Meðferðin bar ekki árangur og hann kom út aftur þess fullviss að ef hann hefði aðeins meiri stjórn á neyslunni yrði þetta ekkert vandamál.
„Ég sá það líka fyrir mér að ég þyrfti að byggja orðspor mitt upp aftur, byggja spilaborgina að nýju,“ segir hann. „Þetta snýst allt um þennan leik og svo bara líða árin. Ég gerði ekki neitt í mínum málum og hægt og hægt vatt þetta upp á sig. Ég jók neysluna, það fór að verða erfitt að halda vinnu. Ég fór á sjóinn til að flýja aðstæður.
Það er svo erfitt að halda öllum boltum á lofti þegar maður er orðinn svona mikill fíkill vegna þess að ég fúnkera ekki innan um fólk sem er ekki að nota því þá þarf ég að fela þetta og það gengur ekki upp hjá mér. Á þessum tíma fór ég að reykja efnið mitt. En þegar þarna var komið var kókaínið, efnið mitt, búið að svíkja mig. Ef ég var ekki undir áhrifum þess leið mér ömurlega og líka undir áhrifum nema ég hitti akkúrat á rétta skammtinn af því og akkúrat áfengismagnið eða einmitt rétta hlutfallið af öðru sem þurfti með og þá leið mér vel í einhverja smástund. Það þurfti orðið svo mikið að ganga upp til að ég fengi einhverja lausn.“
Þetta er vítahringur fíkninnar í hnotskurn og Finnbjörn segir að allt hafi verið orðið kvöl og pína. Hann lýsir sambandi sínu við efnið sitt sem ástar- og þráhyggjusambandi en segir að þarna hafi hann náð algjörum botni.
„Það fer allt út um gluggann, allt siðferði og maður skríður eftir gólfinu í leit að einhverju efni sem er ekki þar,“ segir hann. „Ég man þegar þetta gerðist í fyrsta skipti þá vaknaði ég daginn eftir og hugsaði með mér; gerði ég þetta? Ég mundi að í aðstæðunum fannst mér akkúrat ekkert að þessu. Á þeim tímapunkti áttaði ég mig á hvernig raunverulega var komið fyrir mér og ég hugsaði: Hvað er ég búinn að gera sjálfum mér. Það að vera fíkill hefur svo litla merkingu fyrir þeim sem þekkja það ekki. Þegar ég hélt að ég væri kominn á botninn voru enn eftir mörg stig sem ég átti eftir að prófa. Um leið og maður ákveður að fara niður um eitt þrep enn í þessum fíknistiga verður ekki aftur snúið. Ákvörðunin er tekin og það gerist eitthvað innra með þér og fíknin verður hvassari og harðari, allt einu er komin á þig svipa, taug sem togar alltaf í þig.“
Finnbjörn varð þarna meðvitaður um að svona væri og yrði líf hans ef hann gerði ekki eitthvað til að breyta því. Vanlíðanin var alger og hann segir að enginn gleði eða kærleikur hafi verið til nema í örskömmtum. Hann átti þó enn langa og erfiða leið fyrir höndum.
„Nú get ég litið til baka og þótt vænt um þetta allt,“ segir hann og réttir úr herðunum. „Vegna þess að ég er búinn að ná tökum á þessu sé ég að þarna var loksins byrjunin á einhvers konar enda. Það kom að því að ég gafst upp í fyrsta skipti. Ég lærði þá heilmikið. Ég kom inn og ákvað að gera þetta en aðeins til hálfs. Ég tók Guð inn í en var ekki alveg heill í trúnni, mætti á fundi en hvorki sponsaði né tók fullan þátt í starfinu. Ég var enn með aðra höndina á efninu mínu, ég þorði ekki að sleppa lausninni minni vegna þess að ég treysti ekki neinni annarri lausn. Aldrei í lífi mínu hafði ég fundið neitt annað sem veitti mér það sama, frið innra með mér, sátt í eigin skinni og sjálfsást.“
En svo kom að því að Finnbjörn gekk inn á Hlaðgerðarkot og batinn byrjaði fyrir alvöru. Hann fann fyrir slíkum létti og gleði að um tíma fannst honum hann geta sigrað heiminn. Hann fékk margar góðar hugmyndir, m.a. að kaupa rándýra safapressu því heilsusafi átti að bjarga honum og vini hans, koma þeim til heilsu á ný. En í stað þess að framkvæma hringdi hann í sponsorinn sinn og var dreginn niður á jörðina. Þetta var merki um bata og þau urðu fleiri.
„Í fyrsta sinn þegar ég gekk þarna inn var ég leiddur inn í sal og það var verið að biðja fyrir mér. Þetta var í fyrsta sinn sem beðið var fyrir mér, að því að ég viti til. Beðið var um að þetta yrði min síðasta meðferð, að ég fyndi hér þau verkfæri sem ég þyrfti á að halda til að vera edrú. Ég brotnaði niður og áttaði mig á að ég var að koma úr aðstæðum þar sem ég hafði ekki heyrt neinn tala fallega til mín, hafa trú á mér eða bera umhyggju fyrir mér í svo langan tíma. Það braut mig að einhver sem ég þekkti ekki segði: „Ég hef trú á þér, Finnbjörn, gangi þér vel. Við erum saman í þessu.“ Þetta varð til þess að ég fór að sjá að það var eitthvað í bæninni.
Þegar leið á meðferðina leið mér alltaf verr. Allt var svolítið að detta í sundur, það var mál í kerfinu og ég að missa bílprófið enn eina ferðina. Vissi ekki hve há sektin yrði og ég gat ekki verið með puttana í þessu, var ekki einu sinni með símann minn. Einhver sagði við mig: „Viltu ekki bara taka bæn fyrir þessu.“ Ég gjörsamlega snerist við inni í mér. Hvað meinar hann eiginlega? Hvernig á það að hjálpa mér að tala við sjálfan mig? Ég hringsnerist þarna svolitla stund í smáuppnámi en það endaði með að ég ákvað að gera það. Ég vissi að ég yrði einhvern veginn að breyta líðan minni. Ég gekk eftir ganginum á leið inn í herbergið mitt og þá byrjaði þessi rödd að tala í hausnum á mér, þetta skrímsli sem hefur ævinlega haft hæst allt mitt líf, alltaf sagt mér að ég sé ekki nóg, bannað mér að treysta og ég fór að hugsa: hvað ertu að láta plata þig út í þetta? En að þessu sinni fann ég að ég ætlaði ekki að hlusta. Mig langaði að gefa þessu séns.“
Aleinn í herberginu sínu fór Finnbjörn á hnén og í fyrstu fannst honum það skrýtið en svo kviknaði ný hugsun.
„Af hverju finnst mér það skrýtið og svarið kom um leið. Af því að mér finnst það kjánalegt. Enginn hafði sagt við mig: „Gaur, veistu hvað mér finnst kjánalegt? Að fara á hnén.“ Nei, það hafði enginn komið og talað svona. Þetta var allt innra með mér, mínar hugmyndir og ég spurði: Af hverju? Af hverju? Þarna hófst ferðin mín til frelsis því í fyrsta sinn svaraði ég röddinni og sagði: Hei, hei, hei, ég er búinn að heyra að þér finnist þetta kjánalegt en ég vil hugsa mig um. Slaka þú á, þegiðu aðeins. Í dag er þetta mín saga. Ef ég þarf að fá svör við einhverju verð ég að þagga niður í mínum innri gagnrýnanda, þessum sem trúir ekki á neitt, þessum sem er tortrygginn og passasamur gagnvart öðrum. Þegar ég var kominn á hnén og farinn alla leið bað ég Guð: Sýndu mér hvað er að mér og kenndu mér að treysta þér. Þetta var bænin mín í viku, ég náði að kjarna það í þessum tveimur setningum.“
Mikið áfall reið yfir þegar þáverandi kærasta Finnbjörns heimsótti hann í Hlaðgerðarkot og sleit sambandi þeirra, aftur leitaði hann í bænina.
„Ég var mjög reiður þegar þetta gerðist. Ég hugsaði: Já, er það svona sem á að koma fram við mann? Nú er ég búinn að leggja mig allan fram, sýna lit og taka þessar bænir og svo er það þetta sem maður fær. Rosaflott hjá þér, Gussi.
Þarna datt ég aftur í fórnarlambshlutverkið. Sá fram á að enginn myndi elska mig, ég yrði alltaf einn og allt í kringum mig var hundleiðinlegt lið. Ég fann að ég meikaði þetta ekki og flúði upp á herbergi. Ég settist í stólinn og ákvað að tækla þetta öðruvísi en vanalega. Hugsaði: Ókei hvernig líður mér núna? Svarið kom, ég er hræddur, sorgmæddur og mér líður illa. Þá kom spurningin: Hvers vegna er þetta að gerast núna? Þar sem ég sat í þögninni kom svarið: Af því að þú baðst um þetta. Ég varð rosalega hissa.
Þarna var ég búinn að vera edrú í tvo til þrjá mánuði og fæ þetta svar: Þú baðst um þetta. Ég fór að rífast við svarið en spurði síðan, bað ég um þetta? Gerði ég það virkilega? Hvað þýðir það? Sýndu mér hvað er að mér, kenndu mér að treysta þér, var bænin mín. Já, ég skildi að ég varð að treysta. En í hausnum á mér bjó ég til að ég yrði að treysta Honum fyrir að við tækjum saman aftur. Eftir að hafa verið með þetta svar í huganum í viku áttaði ég mig á því að hún hafði átt að bjarga mér þegar ég kom út úr meðferð. Eina ferðina enn var ég búinn að finna einhvern sem gaf mér virði. Vegna þess að ég gat ekki gefið sjálfum mér eitthvert virði, varð alltaf að koma utanaðkomandi staðfesting á að ég væri í lagi.
Sýndu mér hvað er að mér, var bænin og nú sá ég að ef ég ætlaði að verða í lagi yrði ég að elska sjálfa mig, ekki bíða eftir að hún segði mér að ég væri fínn eða aðrir gæfu mér staðfestingu á því. Ég fattaði að ég hafði þurft að treysta Honum til að leiða mig á rétta leið. Ég elskaði ekki sjálfan mig. Ég gat ekki sýnt sjálfum mér nægilega sjálfsmildi til að vera góður við mig, ekki gefið næga ást til að ég þyrfti ekki að sækja hana til annarra. Með því að gefa öðrum það vald að staðfesta að ég sé einhvers virði stendur mín sjálfsvirðing og fellur með áliti annarra.“
Inni á Hlaðgerðarkoti hóf Finnbjörn að fást við músík á nýjan leik. Hann hafði lagt stund á hana sem unglingur og af og til í gegnum tíðina en þegar þarna var komið sögu uppgötvaði hann nýja hæfileika og skynjaði aftur ást sína á tónlistarsköpun.
„Þegar maður er í neyslu kemst ekkert annað að,“ segir hann. „Mín vegferð í tónlistinni var lituð af sorg yfir því að geta ekki viðhaldið einu eða neinu sem viðkom þessari sköpun. Síðan hafði ég ekki orku í það og oft braut það mig niður að ég byrjaði á einhverju og svo gat ég ekki klárað það. Draumar mínir um þetta runnu bara út í sandinn. Ég var farinn að sleppa algjörlega takinu á tónlistinni því mér fannst kjánalegt að spila einhver gömul lög sem ég hafði gert eða glamra eitthvað á gítarinn. Mér fannst það vanvirðing við sköpunargáfuna sem mér var gefin og að ég væri að sóa henni með því að nota hana til að kreista út eitthvert samþykki eða velvild frá þeim sem voru í kringum mig. Það að vanrækja hæfileika sína er sálardrepandi.
Þegar ég kom inn á Hlaðgerðarkot var ég búinn að gefast upp á þessu en ákvað að taka kassagítarinn með mér. Ég var mögulega einhvers staðar með von um að ef ég myndi nú breytast væri kannski gaman að prófa aftur. Ég náði að semja fyrsta lagið mitt frá upphafi til enda fljótlega eftir að ég kom inn og þá meina ég lag og texta. Það var lofgjörð. Næsta lag var einnig lofgjörð en hana samdi ég með öllum félögum mínum inni á Hlaðgerðarkoti. Ég áttaði mig svo á að ég hafði náð að klára ferlið, semja lögin, texta, útsetja og flytja. Stuttu eftir þetta kom þriðja lagið og ég fann að ég hafði gaman af að gera þetta og átti auðvelt með að semja.“
Síðan þá hefur Finnbjörn verið að skapa tónlist og hann finnur að í sköpunarflæðinu líður honum best.
„Þetta þarf ekki einu sinni að vera eitthvað rosalega gott. Ef mér líður vel og ég hef ánægju af því sem ég er að gera get ég notið þess að sitja heima hjá mér og hlusta á eitthvað verða til. Það veitir mér hamingju. Að flytja það fyrir aðra veldur svolitlum kvíða og spennu en ég þarf ekki lengur þessa viðurkenningu sem var mér svo lífsnauðsynleg áður. Guð hefur séð til þess. Mér finnst ég nálgast Guð með því að skapa. Eftir að ég hætti að vera svona gagnrýninn á allt sem ég geri í tónlistinni fór ég að þora að taka þátt í verkefnum sem ég hafði aldrei þorað að taka þátt í áður.
Ég fór að spila í kirkjunum og víðar. Vegna þess hve gaman það var fékk ég aftur áhuga á gítarnum, fór að æfa mig á hann og fann aftur ást mína á hljóðfærinu. Það varð svo til þess að ég tók þátt í að stofna lofgjörðarband sem heitir Reykjavík Revival. Við fórum út til Makedóníu að spila og spilum alltaf í Veginum á mánudögum. Það er rosalega gaman. Við erum að semja lög saman og sköpum fyrir Guð. Við erum búin að íslenska textann við erlent lofgerðarlag og gefum það út bráðlega. Ég hef einnig verið að skapa tónlist með Ívari Kolbeins, vini mínum sem fór sömu leið og ég. Oft höfðum við talað um að gera eitthvað saman en eins og sönnum alkóhólistum sæmir gátum við aldrei hist eða fundið tíma til að gera annað en að nota. Núna, þegar við erum orðnir frjálsir, höfum við nógan tíma og erum að gera lög saman.
Þetta eru allt tækifæri sem ég búinn að fá. Þessi innri gagnrýnandi er enn til staðar og segir oft: Nei, ekki taka þátt í þessu. Ekki gera þetta. En í dag fæ ég að ritskoða allt og svara honum fullum hálsi: Jú, ég ætla að gera þetta, ég ætla að taka þátt í þessu og sjá hvað Guð gerir og ef þetta rennur út í sandinn þá er það svo. Ég er hættur að vera svona háður fólkinu í kringum mig og ekki lengur hræddur við að prófa. Ég ætla að skapa, gera það með hreinu hjarta og þannig vil ég lifa lífinu,“ segir Finnbjörn að lokum.