Aston Villa og Dortmund unnu bæði leiki sína gegn Paris Saint-Germain og Barcelona í kvöld en það dugði ekki til að sigra einvígin.
Um seinni leiki í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar var að ræða. PSG vann fyrri leikinn gegn Villa 3-1 og Börsungar rústuðu Dortmund 4-0.
Það stefndi í þægilegan dag á skrifstofunni fyrir gestina frá París í kvöld þegar Achraf Hakimi kom þeim yfir á 11. mínútu og Nuno Mendes tvöfaldaði forskotið eftir tæpan hálftíma leik.
Youri Tielemans minnkaði þó muninn fyrir Villa fyrir lok fyrri hálfleiks og gaf þeim von. Á fyrsta stundarfjórðungi seinni hálfleiks komust heimamenn svo yfir með mörkum John McGinn og Ezri Konsa. Þeir reyndu að sækja annað mark til að koma einvíginu í framlengingu en það tókst ekki.
Lokatölur 3-2 en PSG vinnur 5-4 samanlagt. Frábærri leiktíð Villa í Meistaradeildinni lokið þetta tímabilið en PSG mætir Arsenal eða Real Madrid í undanúrslitum.
Serhou Guirassy skoraði þrennu fyrir Dortmund gegn Barcelona. Liðið komst í 2-0 og 3-1 og leyfði sér að dreyma um endurkomu. Nær komust Þjóðverjarnir hins vegar ekki.
Barcelona fer því áfram og mætir annað hvort Bayern Munchen eða Inter í undanúrslitum.