Arne Slot, stjóri Liverpool, hefur verið dæmdur í tveggja leikja bann fyrir hegðun sína eftir leikinn gegn nágrönnunum í Everton á dögunum.
Endir leiksins var dramatískur, Everton skoraði jöfnunarmark í lokin og mikil slagsmál brutust svo út. Slot var brjálaður eftir leik og gaf Michael Oliver honum rautt spjald í kjölfarið.
Slot stýrði svo Liverpool gegn Wolves, Aston Villa og Manchester City á meðan enska knattspyrnusambandið tók sér tíma í að ákveða örlög hans. Nú er ljóst að hann verður ekki á hliðarlínunni gegn Newcastle og Southampton.
Slot þarf þá að greiða 70 þúsund pund í sekt og aðstoðarmaður hans, Sipke Hulshoff, sem einnig fékk tveggja leikja bann, 7 þúsund pund.
Liverpool tekur á móti Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og mun Johnny Heitinga stýra liðinu í fjarveru Slot og Hulshoff.