Ibrahima Konate, leikmaður Liverpool, er eftirsóttur þessa stundina en frá þessu greinir ESPN.
Konate hefur spilað mjög vel með Liverpool undanfarið og er nú talinn vera á óskalista franska stórliðsins Paris Saint-Germain.
Luis Enrique, stjóri PSG, er talinn vera mikill aðdáandi Konate sem er franskur og ku hafa áhuga á að snúa aftur til heimalandsins.
Enrique horfir á Konate sem eftirmann Brasilíumannsins Marquinhos sem hefur reynst PSG virkilega vel í mörg ár.
Konate hafnaði nýjasta samningstilboði Liverpool og gæti félagið reynt að selja hann vegna meiðslasögu leikmannsins.
Konate hefur ekki spilað oftar en 22 sinnum í ensku úrvalsdeildinni síðan hann kom til Englands árið 2021.