Benoný Breki Andrésson hefur skrifað undir samning við Stockport í Manchester, Englandi. Stockport eru nýliðar í þriðju efstu deild Englands en það er mikill hugur í liðinu að komast upp um deild á komandi leiktíð.
Eins og allir vita þá hefur Benoný Breki verið gríðarlega mikilvægur hlekkur í liðinu undanfarin tvö ár. Hann átti flott tímabil í fyrra en toppaði það í ár með því að slá markamet Íslandsmótsins með 21 mörk skoruð.
„Það er auðvelt að samgleðjast Benóný Breka. Þrátt fyrir að hafa alið manninn að mestu utan 107 er hann KR-ingur og af góðu KR kyni. Sérlega ánægulegt að sjá einn af okkar góðu drengjum taka næsta skref. Það var nokkuð fyrirsjáanlegt eftir hans fyrra tímabil að leiðin myndi liggja aftur út og eftir frábært tímabil nú í sumar var eina spurningin hvar hann myndi enda. Við óskum okkar manni góðs gengis á nýjum vettvangi og á sama tíma þökkum við fyrir frábært framlag til félagsins. Sérlega ánægjulegt að markametið skuli vera svarthvítt.“ segir Páll Kristjánsson, formaður knd. KR.