Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United og Leeds, skilur ekki af hverju stuðningsmenn þess síðarnefnda eru enn með hatur í hans garð.
Ferdinand er langt frá því að vera vinsæll hjá stuðningsmönnum Leeds eftir að hafa samið við Manchester United fyrir metfé árið 2002.
Leeds var að selja sinn besta leikmann til Barcelona á dögunum, Raphinha, og kostar hann spænska félagið um 55 milljónir punda.
Ferdinand segir að þetta sé sala sem Leeds þarf á að halda rétt eins og þegar félagið seldi hann til Manchester.
,,Þetta er svipað þegar kemur að því [fjármálum félagsins] en ég þekki ekki smáatriðin og hvernig þetta virkar hjá Leeds í dag, þeir voru þó að eyða meira en þeir voru að græða,“ sagði Ferdinand.
,,Það var alltaf vandamál Leeds. Þess vegna sáuði félagið selja leikmenn eins og mig, Robbie Keane, Jonathan Woodgate og fleiri. Margir þurftu að fara til að jafna út reikninga félagsins og í lokin bjarga félaginu.“
,,Þess vegna skil ég ekki af hverju stuðningsmenn Leeds þola mig ekki, ég bjargaði félaginu frá því að deyja. Þetta eru smáatriði sem munu koma upp á yfirborðið á endanum, alveg eins og hjá Barcelona.“