Dimitar Berbatov framherji Kerala Blasters í Indlandi verður líklega ekki áfram í herbúðum félagsins á næstu leiktíð eftir útspil sitt í vikunni.
David James tók við þjálfun liðsins á dögunum en náði ekki að koma liðinu í úrslitakeppnina. Ánægja var hins vegar með störf James og fékk hann nýjan tveggja ára samning í dag. Hermann Hreiðarsson var aðstoðarþjálfari hans og Guðjón Baldvinsson lék í sóknarlínu liðsins.
Berbatov var að fara heim frá Indlandi í dag og ákvað að hrauna aðeins yfir James.
,,Versti næstum því þjálfari sögunnar, versti taktíski þjálfari sögunnar,“ skrifaði Berbatov.
,,Vippið boltanum á framherjann og við vinnum frá því, hvað rugl er þetta? Hver spilar svona.“
Guðjón er í áhugaverðu viðtali á Vísir.is og hann segir viðbrögð Berbatov ófagmannleg.
„Það kom upp eitthvað atvik í lokaleiknum þar sem Berbatov var settur á bekkinn. Eitthvað gerðist þar og hann fór bara heim, greinilega í smá fýlu. Meira svo sem veit ég ekki. Þetta var mjög ófagmannlegt hjá honum fannst mér, að bíða þar til hann var kominn upp í flugvél til að senda þessi skilaboð,“ segir Guðjón við Vísir.is en hann er kominn aftur til Stjörnunnar eftir að hafa verið á láni.