Hin unga og efnilega landsliðskona, Agla María Albertsdóttir, hefur gert tveggja ára samning við Breiðablik.
Agla María er uppalin Bliki og spilaði í gegnum alla yngri flokka með félaginu. Þrátt fyrir að vera aðeins 18 ára hefur hún þegar leikið 52 leiki í meistaraflokki og skorað í þeim 13 mörk. Flesta með Stjörnunni þar sem hún spilaði undanfarin tvö tímabil.
Þá hefur Agla María náð að tryggja sér sæti í A landsliði Íslands þar sem hún hefur spilað 10 leiki frá vormánuðum 2017. Auk þess á Agla María 27 landsleiki með yngri landsliðum Íslands.
Agla María hefur spilað einn leik með Blikum en það var þegar hún var 15 ára gömul í Lengjubikarnum á móti ÍBV þar sem hún setti eitt mark.