Tveir af ungum og efnilegum leikmönnum Blikaliðsins, Brynjar Óli Bjarnason og Gísli Martin Sigurðsson, hafa verið lánaðir í 1. deildarlið ÍR.
,,Strákarnir hafa verið lykilmenn í 2. flokksliði Blika undanfarin ár en voru að ganga upp í meistaraflokk í haust. Brynjar Óli er fjölhæfur sóknarmaður en Gísli Martin getur leikið bakvörð eða vængstöðuna,“ segir á heimasíðu Breiðabliks.
Þess má einnig geta að ÍR-ingar hafa einnig fengið annan Blika, Aron Skúla Brynjarsson, til sín en hann hefur undanfarin tvö ár leikið með Val. Allir eru strákarnir fæddir 1998 og því á tuttugasta árinu.
ÍR gekk með ágætum í 1. deildinni síðasta sumar og hefur verið að bæta í lið sitt.