Það kom öllum í opna skjöldu þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson sagði upp störfum hjá Haugesund í morgun eftir stutt stopp.
Óskar tók formlega við Haugesund í upphafi árs en hann stýrði liðinu í sex deildarleikjum og sótti sex stig.
„Hvernig má þetta vera? Velta áhugamenn um boltann fyrir sér, ég er búinn að heyra í mörgum norskum blaðamönnum í morgun. Það er strákur þarna Sancheev Manoharan, hann bjargar liðinu frá falli og stýrir þeim þar. Hann á að stíga til hliðar og vera aðstoðarþjálfari, hann hafði engan áhuga á að vera aðstoðarþjálfari og vann gegn Óskari. Þannig upplifi ég það,“ segir Hjörvar Hafliðason í nýjasta þætti Dr. Football.
„Það er markmannsþjálfari og Óskar upplifir að hann hafi þetta fólk ekki með sér í liði, þetta er hættulegt að mæta á einhvern stað og hafa engan með sér. Þú verður að hafa einhvern sem þú getur treyst.“
Hjörvar segir að Óskar hafi upplifað að hann væri einn á báti hjá Haugesund.
„Óskar mætir einn, og hann sér það strax að það séu ekki allir að róa í sömu átt. Þeir vildu spila upp á stig en Óskar vildi spila stíl, hann vildi láta liðið spila sinn fótbolta.“
Patrik Snær Atlason, PBT var gestur í þættinum og ræddi einnig málið.