Liverpool þarf að fara afar illa af ráðum sínum ef liðið ætlar sér ekki a vera með í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu.
Liverpool gekk frá Manchester City í fyrir leik liðanna í átta liða úrslitum í gær, leikið var á Anfield. Mohamed Salah kom Liverpool yfir á tólftu mínútu leiksins, eftir mistök í varnarleik City hrökk boltinn til Roberto Firmino sem kom honum á Salah. Hinn sjóðheiti sóknarmaður lét ekki bjóða sér það tvisvar og setti boltann í netið.
Níu mínútum síðar var komið að Alex Oxlade-Chamberlain sem þrumaði knettinum í hornið fyrir utan teig. Geggjað mark frá enska miðjumanninum sem hefur stimplað sig hressilega inn í lið Liverpool. Það var síðan eftir rúman hálftíma sem Sadio Mané hlóð í þriðja markið og síðasta naglann i kistu City. Salah átti frábæra fyrirgjöf sem Mane skallaði framhjá Ederson í marki City.
City var ögn sterkari aðilinn í síðari hálfleik en lærisveinar Jurgen Klopp spiluðu agaðan varnarleik.
Fyrir leik voru stuðningsmenn Liverpool með læti en þeir skemmdu rútu City með því að skjóta blysum í hana og kasta í hana öllu lauslegu.
Rútan er óökuhæf og hefur Liverpool sent frá sér yfirlýsingu og beðist afsökunar á atvikinu.
Myndband úr rútu City er hér að neðan.