„Mér fannst við spila heilt fyrir tvo góða leiki, við vorum vel skipulagðir og þeir voru ekki að skapa sér mikið á móti okkur,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH eftir 1-0 tap liðsins gegn Maribor í forkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.
Það var Tavares sem skoraði eina mark leiksins á 92 mínútu og FH er því úr leik í Meistaradeildinni en liðið mun leika um laust sæti í Evrópudeildinni.
„Það sem að vantaði í þessum leik var að þegar að við vorum komnir í góðar stöður á síðasta þriðjungnum þá voru menn kannski of stífir og það vantaði aðeins að taka betri ákvarðanir.“
„Það voru möguleikar, sérstaklega í fyrri hálfleik að koma með hlaup fram fyrir varnarmennina en svona fór þetta í dag. Auðvitað getur maður hugsað með sér að við hefðum átt að byrja taka sénsa fyrr en mér fannst ekki forsendur fyrir því.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.