Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, var bjartsýn í kvöld þrátt fyrir 3-0 tap gegn Austurríki í lokaleik Íslands á EM.
,,Hvað er efst í huga? Ég er ótrúlega svekkt að vinna ekki seinasta leikinn. Við ætluðum okkur að vinna hann,“ sagði Sara.
,,Allir leikmenn brotnir? Við vorum ekki brotnar þó við höfum fengið tvö mörk á okkur. Við lögðum allt í sölurnar gjörsamlega. Mér fannst við ekki brotna, við reyndum og reyndum.“
,,Freyr sagði við okkur að vera fókuseraðar í föstum leikatriðum og við þurfum að hirða upp þessa bolta og snúa þessu við í okkar hag en því miður náðum við ekki að gera það.“
,,Við spilum ágætlega á köflum og erum með leikmenn sem eru með mikið sjálfstraust á mótinu og unga leikmenn sem eru að fá sitt fyrsta stórmót á bakið.“
,,Mér líður ágætlega í þessu kerfi. Við höfðum spilað marga góða leiki fyrir undankeppnina og kerfið á að bjóða upp á góða möguleika sóknarlega en við þurfum að gera betur með boltann.“