„Þetta er bara ótrúlega sárt og stingandi bara,“ sagði Sif Atladóttir, leikmaður íslenska landsliðsins eftir 1-2 tap liðsins gegn Sviss í kvöld.
Fanndís Friðriksdóttir kom Íslandi yfir á 33 mínútu áður en Lara Dickenmann jafnaði metin undir lok fyrri hálfleiks. Það var svo Ramona Bachmann sem skoraði sigurmark leiksins í upphafi síðari hálfleiks og þar við sat.
„Þetta var skrítinn leikur. Þær ná þremur skotum á markið og skora tvö mörk, hvað gerist veit ég ekki en við þurfum að skoða það allavega.“
„Þær voru ekkert að gefa okkur mörg færi á því að spila út. Ég þarf að skoða það sjálf betur. Ég er gríðarlega stolt og þakklát fyrir þennan stuðning, þetta eru 3.000 manns og ég veit að það eru margir að horfa á heima.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.