Kristófer Sigurgeirsson þjálfari Leiknis segir að mörg lið geti farið upp úr 1. deild karla í sumar.
Deildin er afar sterk en samkvæmt spánni mun Leiknir enda í sjötta sæti deildarinnar.
,,Já og nei, þessi spá skiptir mig ekki öllu máli heldur hvað við gerum í sumar. Lið sem er spáð um miðja deild fara jafnvel bara upp eins og Grindavík í fyrra sem var spáð sjötta sæti,“ sagði Kristófer um spánna.
Kristófer hætti sem aðstoðarþjálfari Breiðabliks síðasta haust og tók við Leikni. Útlitið var ekki bjart á fyrstu æfingu.
,,Það voru 7 á fyrstu æfingu og margir lykilmenn farnir, við þurftum að sækja menn í staðinn. Ég er mjög sáttur með það sem ég er með í dag,“ sagði Kristófer en er ekki gaman að vera orðinn maðurinn sem stýrir hlutunum?
,,Ég hef nú alltaf verið maðurinn, þetta er tvennt ólíkt þó maður sé inn í öllum hlutum sem aðstoðarþjálfari. Núna tekur maður ákvörðunina.“
Viðtalið er í heild hér að ofan og neðan.