Dragan Kazic, tímabundinn þjálfari Víkings R, var svekktur í kvöld er við heyrðum í honum eftir 3-2 tap gegn Breiðabliki á heimavelli.
,,Ég er mjög óánægður því við ræddum þessi vandamál fyrir leikinn og líka um góðu hluti Breiðabliks,“ sagði Dragan.
,,Við ræddum mikið um föst leikatriði. Þeir eru með nokkra stráka sem gerir þá hættulega í þeim stöðum en því miður fengum við tvö mörk á okkur á fimm mínútum eftir fast leikatriði.“
,,Það er mjög mikilvægt að skora fyrsta markið, það er auðvelt að spila eftir það því þú ert með meira sjálfstraust.“
Dragan var svo spurður að því hvort hann væri að taka endanlega við liðinu en hann veit það ekki enn.
,,Þú þarft að spyrja stjórnina að þessu. Við munum ræða allt saman en ég er atvinnuþjálfari og ef þeir þurfa að breyta einhverju þá er ég hérna til að samþykkja það.“