Bjarni Helgason skrifar frá Shkodër:
„Þetta var ströggl en sem betur fer sigldum við þessu heim sagði Rúrik Gíslason, leikmaður íslenska landsliðsins eftir 2-1 sigur liðsins gegn Kosóvó í kvöld.
Það voru þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Gylfi Þór Sigurðsson sem skoruðu mörk Íslands í leiknum en Atdhe Nuhiu skoraði mark heimamanna í leiknum.
Ísland er því komið í vænlega stöðu á nýjan leik en liðið er í öðru sæti riðilsins með 10 stig, þremur stigum minna en Króatar sem unnu Úkraínu 1-0 í kvöld.
„Við erum komnir til Albaníu og það er ekkert auðvelt að mæta á útivöll í Austur-Evrópu og vel gert hjá okkur að standast pressuna þeirra í byrjun. Þeir eru með glænýtt lið og þeir hafa ekki spilað marga leiki á heimavelli þannig að það var mikil spenna og eftirvænting í gangi hjá þeim.“
„Það er komin svo mikil reynsla í þetta lið og ég held að hún hafi stórt hlutverk í dag. Þrátt fyrir að við værum undir pressu þá brotnum við ekki og það er mjög jákvætt.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.