Bjarni Helgason skrifar frá Shkodër:
„Við höfum oft spilað betur en við gerðum það sem þurfti í dag,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, markmaður íslenska landsliðsins eftir 2-1 sigur liðsins gegn Kosóvó í kvöld.
Það voru þeir Björn Bergmann Sigurðarson og Gylfi Þór Sigurðsson sem skoruðu mörk Íslands í leiknum en Atdhe Nuhiu skoraði mark heimamanna í leiknum.
Ísland er því komið í vænlega stöðu á nýjan leik en liðið er í öðru sæti riðilsins með 10 stig, þremur stigum minna en Króatar sem unnu Úkraínu 1-0 í kvöld.
„Þessi leikur var mjög erfiður að mörgu leyti. Þetta er flott fótboltalið sem við vorum að spila við og þeir sýndu það í kvöld að þeir eru með hörkulið. Við náum að standa þá af okkur í fyrri hálfleik.“
„Þeir pressuðu á okkur en varnarlínan hleypti þeim ekki í mörg opin færi. Þeir voru eitthvað að reyna skjóta utan af velli en hittu sjaldan á rammann en það sem mestu máli skiptir er að þeir sköpuðu ekki mikið.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.