„Rúsínan í pylsuendanum að fá úrslitin frá Zagreb og gaman að fá gjöf. Við töpuðum á móti Finnum og við vitum að þeir eru sterkir,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska landsliðsins eftir 3-0 sigur liðsins á Tyrkjum í kvöld.
Það voru þeir Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason sem skoruðu mörk Íslands í leiknum og er liðið nú á toppi I-riðils með 19 stig í efsta sætinu.
„Eins og staðan er hjá okkur í dag þá var þetta magnaður sigur. Við sem að vorum hérna vitum hvernig andrúmsloftið hérna var og þetta var skipulag, vinnusemi og bílfarmur af karakter í þessum leik sem ég held að hafi skilað sér til allra þeirra sem horfðu á þennan leik.“
„Það virtist ekki hafa nein áhrif á strákana, þessi stemning sem var hérna. Núna hefst bara undirbúningur fyrir mánudaginn, þetta verður erfitt ferðalag og það verður lítið sofið í nótt. Við fáum einn dag í undirbúning og það er okkar núna að ná að undirbúa liðið og fá strákana til að fókusera á verkefnið sem er framundan.“
Viðtalið má sjá hér fyrir ofan og neðan.