„Ég vissi að hann myndi ekki nenna að hlaupa með mér fyrir mikið, ég ætlaði bara að reyna vera fyrir mönnum en þetta datt fyrir mig og ég negldi honum inn,“ sagði Kári Árnason, leikmaður íslenska landsliðsins eftir 3-0 sigur liðsins á Tyrkjum í kvöld.
Það voru þeir Jóhann Berg Guðmundsson, Birkir Bjarnason og Kári Árnason sem skoruðu mörk Íslands í leiknum og er liðið nú á toppi I-riðils með 19 stig í efsta sætinu.
„Ég vissi að þetta væri komið þegar annað markið kom en auðvitað er þægilegra að fá þriðja markið. Það er hættuleg forysta að vera með tvö mörk en þriðja markið kom og þá var leikurinn búinn.“
„Við erum búnir að spila svo marga svona, nákvæmlega eins leiki þar sem hitt liðið fær að hafa boltann og við erum með varnarskipulagið og við erum með menn sem vinna þvílíka vinnu og það gerir þetta auðveldara fyrir okkur.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.