„Ég er í góðu standi, ég er búinn að spila eiginlega allar mínútur síðan að ég kom til Everton og er bara spenntur fyrir Tyrkjaleiknum núna,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins á æfingu liðsins í morgun.
Gylfi kom til Everton í sumar frá Swansea en gengi liðsins á þessari leiktíð hefur valdið talsverðum vonbrigðum og situr liðið í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 7 stig eftir fyrstu sjö leikina, tveimur stigum frá fallsæti.
„Það sjá það allir að við erum ekki alveg að spila eins og fólk bjóst við. Við erum ekkert rosalega langt frá því að ná að snúa þessu við en það eru svona litlir hlutir sem við þurfum að laga, bæði varnarlega og sóknarlega.“
„Það eru nýjir leikmenn þarna og hlutirnir ekki alveg að ganga en ég hef fulla trú á því að við náum að snúa þessu við.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.