„Ég er eiginlega bara pirruð að hafa ekki unnið þennan leik,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, sóknarmaður íslenska landsliðsins eftir 1-0 tap gegn Brasilíu í kvöld.
Það var Marta, sóknarmaður Brasilíu sem skoraði eina mark leiksins í síðari hálfleik og lokatölur því 1-0.
Þetta var síðasti leikur íslenska liðsins fyrir EM í Hollandi sem hefst þann 16. júlí næstkomandi.
„Við fengum mörg færi í fyrri hálfleik og hefðum hæglega getað verið 2-0 yfir í hálfleik þannig að það er bara fínt held ég að vera svekktur að vinna ekki Brasilíu.“
„Það er margt sem við getum tekið jákvætt út úr þessu. Við börðumst eins og ljón og vildum þetta meira en þær en hefðum átt gera betur fyrir framan markið þeirra.“
Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan og neðan.