Íslenska karlalandsliðið spilaði leik í undankeppni HM í kvöld en strákarnir okkar mættu Króötum í sjöttu umferð.
Króatía er með gríðarlega sterkt landslið en liðið hafði betur gegn okkur í Króatíu með tveimur mörkum gegn engu.
Ísland spilaði afar vel á köflum í kvöld en það vantaði oft upp á að skapa alvöru marktækifæri.
Það var eitt mark skorað í leiknum og það voru okkar menn sem gerðu það undir lok leiksins.
Jóhann Berg Guðmundsson fékk dauðafæri á 89. mínútu leiksins en lét verja frá sér og björguðu Króatar í horn.
Úr hornspyrnunni kom sigurmark Íslands en Hörður Björgvin Magnússon skoraði þá með öxlinni eftir hornspyrnu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.
Gríðarlega mikilvæg stig fyrir Ísland sem fagnar þremur frábærum stigum gegn einu af bestu landsliðum heims.
Eftir leik var mikið fagnað í Laugardalnum eins og sjá má í myndbandinu hér að ofan og neðan.