Víðir Sigurðsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, segir að rík ástæða hljóti að vera fyrir því að íslenska kvennalandsliðið í handbolta fái ekki að spila fyrir framan áhorfendur gegn Ísrael í kvöld og annað kvöld um umspili um sæti á HM.
Liðin mætast á Ásvöllum í Hafnarfirði en hluti almennings hefur gagnrýnt að Ísland samþykki að mæta Ísrael yfirhöfð. Ljóst er að þeir fara fram en án áhorfenda og er það að ráði ríkislögreglustjóra. Víðir bendir á að fjöldi liða og landsliða í öðrum íþróttum, einkum knattspyrnu, hafi spilað við Ísrael eða ísraelsk félagslið frá því átökin á Gasa hófust, fyrir framan áhorfendur.
„Sú ákvörðun að leyfa ekki áhorfendum að fylgjast með kvennalandsleikjum Íslands og Ísraels í handbolta á Ásvöllum annað kvöld og á fimmtudagskvöldið er sérstök, svo ekki sé meira sagt. Ísraelsk landslið hafa spilað frammi fyrir áhorfendum víðs vegar um Evrópu eftir að átökin á Gasa hófust, m.a. lék karlalandslið Ísraels í knattspyrnu útileiki gegn Frakklandi og Ítalíu í vetur, með áhorfendur í stúkunum. Ísraelska knattspyrnuliðið Maccabi Tel Aviv mætti Breiðabliki á Kópavogsvelli í árslok 2023 án teljandi vandræða. Þar voru áhorfendur í stúkunni og friðsamir mótmælendur fyrir utan girðingu,“ skrifaði Víðir meðal annars í pistli í Morgunblaðið.
„Ríkislögreglustjóri hefur eflaust haft ríka ástæðu til að leggja til við HSÍ að spilað yrði án áhorfenda í þetta sinn. Eitthvað hefur komið upp sem vekur þennan ótta um aðgerðir. Einhverjar hótanir sem ekki hefur verið sagt frá. Annars væru þessi tilmæli hreinasta vitleysa og til marks um að einhver hafi farið á taugum. HSÍ getur ekki annað gert en að fara að tilmælum ríkislögreglustjóra um að leikið sé án áhorfenda og leikurinn ekki auglýstur,“ skrifaði Víðir enn fremur og benti á að þetta allt saman bitnaði helst á landsliðskonunum okkar.