Það verður forgangsmál hjá Manchester City í sumar að fylla skarð Kevin De Bruyne, sem yfirgefur félagið eftir áratug þar.
Á þessum tíma var De Bruyne lengi vel einn besti leikmaður City og það á miklum blómatíma félagsins.
Það var þó ákveðið að framlengja ekki við Belgann og horfa til framtíðar. Nú hefst leit að nýjum manni.
Hinn virti blaðamaður David Ornstein segir City með augastað á Florian Wirtz, leikmanni Bayer Leverkusen sem þykir einn sá mest spennandi í heimi.
Wirtz hefur áður verið orðaður við City en Ornstein segir félagið einnig skoða möguleika innan Englands.
Þar á meðal er Morgan Gibbs-White, sem hefur heillað í spútnikliði Nottingham Forest á leiktíðinni.
Gibbs-White er á sínu þriðja tímabili hjá Forest, sem stefnir hraðbyri á Meistaradeildina á næsta ári. Þessi 25 ára gamli leikmaður er kominn með fimm mörk og níu stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.