Ein af stjörnum Manchester United hafði samband við Paul Scholes fyrrum miðjumann félagsins í vetur og vildi ræða við hann um ummæli sem hann lét falla.
Scholes er óhræddur við að segja sína skoðun í sjónvarpi þar sem hann starfar fyrir TNT og The Overlap þáttinn.
„Leikmenn eru oft viðkvæmir í dag,“ sagði Scholes í Overlap.
„Það var leikmaður á þessu tímabili sem hafði samband við mig og var ósáttur við það sem ég hafði sagt.“
„Hann vildi hitta mig á æfingasvæðinu, ég sagði að það væri ekkert vandamál. Ég gaf honum símanúmerið mitt en hann hafði aldrei samband.“
„Ég hefði mætt á svæðið og rætt það, ef ég segi eitthvað sem ég trúi þá get ég útskýrt það. Það hefði ekki verið skemmtilegt samtal.“
„Ég sagði honum að láta aðra leikmenn fá númerið mitt ef þeir væru ósáttir með eitthvað.“