Ísland er í þriðja og næstneðsta sæti riðilsins með 2 stig en Sviss stigi minna á botninum. Noregur er svo með 4 stig og Frakkar á toppnum með 9 stig. Annað sætið veitir áframhaldandi þátttöku í A-deild en það þriðja umspil um að halda sér. Liðið sem endar í neðsta sæti fellur.
„Leikurinn á morgun er gríðarlega mikilvægur upp á að ná markmiðum okkar, sem er að vera í tveimur efstu sætunum í riðlinum. Það hefur ekkert breyst. Við þurfum að fá góð úrslit á morgun. Við förum í þennan leik til að vinna og gerum allt sem við getum til þess,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Íslands, á blaðamannafundi í dag.
Hann segir þá alla leikmenn klára í leikinn á morgun, sem fram fer á heimavelli Þróttar í Laugardalnum. „Það eru allar heilar fyrir morgundaginn. Það eru engin eftirköst eftir Noregsleikinn og allar klárar.“
Fyrri leik liðanna í Sviss lauk með markalausu jafntefli.