Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, ræddi við Stöð 2 Sport í kvöld eftir leik sinna manna við Breiðablik.
Leikurinn tapaðist 2-0 á erfiðum útivelli og má segja að Íslandsmeistararnir hafi átt sigurinn skilið.
Afturelding komst upp í Bestu deildina síðasta sumar og fékk svo sannarlega erfiða byrjun gegn sterkum Blikum.
,,Það sem pirrar mig mest að við náðum ekki að spila meira, við náðum ekki að koma okkur ofar, það fór í taugarnar á mér. Við náðum ekki að búa til færi fyrr en undir lok fyrri hálfleiks.“
,,Við fórum yfir það í hálfleik að við þyrftum að vera hugrakkari og þora að spila, við þurftum að vera hugaðari. Við höfðum engu að tapa 2-0 undir eftir fyrri hálfleik. Þetta var frumsýning sem kannski sat í mönnum í byrjun.“
Magnús ræddi svo bróður sinn, Anton Ara Einarsson, sem átti frábæran leik í marki Breiðabliks í kvöld.
,,Hann var góður sko en hérna, það var pirrandi að hann hafi verið að verja. Ég er yfirleitt ánægður með þegar hann er að verja en í dag var ég ekki alveg nógu ánægður. Hann var góður, hann má eiga það.“