Jón Þór Hauksson, þjálfari karlaliðs ÍA, stefnir á efri hlutann á komandi leiktíð í Bestu deildinni, og vonandi eitthvað hærra.
Jón Þór ræddi við 433.is á kynningarfundi deildarinnar í gær, en þar var ÍA spáð 6. sæti, á sama stað og þeir enduðu sem nýliðar í fyrra.
„Þetta er staðurinn sem við viljum vera á að loknu hefðbundnu móti, þegar deildin skiptist. Við viljum vera þarna, í efri hlutanum. Við viljum vera í stöðu til að stokka markmiðin upp þá og vonandi horfa ofar í töfluna en þetta,“ sagði Jón Þór, sem er mjög sáttur við stöðuna á sínu liði.
„Við erum mjög ánægðir með leikmannahópinn, á hvaða stað liðið er. Undirbúningstímabilið hefur verið nokkuð frábrugðið undibúningstímabilinu í fyrra að því leyti að það hefur verið minna undir í þeim leikjum sem við höfum tekið þátt í núna því við fórum í úrslitaleiki í fyrra í þeim mótum sem við tókum þátt í.“
Ítarlega er rætt við Jón Þór í spilaranum hér að ofan.