Graziano Fiorita, sjúkraþjálfari ítalska liðsins Lecce, var bráðkvaddur í gær og hefur leik liðsins við Atalanta, sem átti að fara fram í kvöld, því verið frestað.
Fiorita var með liðinu við æfingar í Coccaglio þegar hann lést, aðeins 38 ára gamall. Allir hjá Lecce voru slegnir, eins og fram kemur í yfirlýsingu félagsins.
Það er með mikilli sorg í hjarta sem við tilkynnum andlát Graziano Fiorita. Við getum aðeins tekið utan um eiginkonu hans, Azzura, börn hans og fjölskyldu á þessum erfiðu tímum.
Fiortita hefur verið viðloðinn Lecce í yfir tvo áratugi. Faðir hans, Fernando, starfaði einnig þar sem nuddari.
Íslenski landsliðsmaðurinn Þórir Jóhann Helgason er á mála hjá Lecce og birti færslu á samfélagsmiðla eftir sorgleg tíðindi gærdagsins.
Frestaður leikur Lecce við Atalanta fer fram á sunnudag.