Valur hefur tryggt sér þjónustu markvarðarins Frederik Schram á nýjan leik, en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið. Schram, sem lék með Val á árunum 2022–2024 og spilaði 55 leiki, kemur aftur eftir stutta dvöl hjá danska félaginu FC Roskilde.
Tilkynning Vals
Ástæða endurkomunnar er sú að Ögmundur Kristinsson sem leysti Frederik Schram af hólmi hefur ekki náð sér að fullu eftir meiðsli, þrátt fyrir mikinn vilja og mikla vinnu.
Ömmi svekktastur: „Það er auðvitað alltaf erfitt þegar menn eru að glíma við langvarandi meiðsli og við erum virkilega svekktir með stöðuna á Ögmundi. Það er samt enginn svekktari en Ömmi sjálfur. Hann hefur lagt allt í að ná sér góðum, en stundum fara hlutirnir ekki eins og maður vonast eftir. Hann hefur verið mjög faglegur í öllu síðan hann kom til okkar og lyft mörgu á hærra level með sínu flotta viðhorfi,“ segir Björn Steinar Jónsson formaður knattspyrnudeildar Vals.
„Það jákvæða við stöðuna er þó að Stefán Þór, ungur og efnilegur markvörður, hefur fengið tækifæri í vetur og staðið sig mjög vel í byrjun móts. Ömmi hefur hjálpaði Stefáni mikið og á stórt hrós skilið fyrir það hvernig hann hefur stutt við Stefán. Svo eigum við líka fleiri unga og efnilega markmenn í félaginu sem við horfum til eftir nokkur ár.“
Stutt er í að félagaskiptaglugginn loki hér á landi og því segir Björn að Valur hafi brugðist við þessari óvissu með Ögmund með því að semja við Frederik Schram.
Alvöru samkeppni um flestar stöður: „Fredrik er auðvitað bara Valsari og frábær gaur sem ég hef haldið góðu sambandi við síðan hann fór. Þegar ég greindi honum frá stöðunni hjá okkur var strax ljóst að þau fjölskyldan voru til í að skoða það að koma aftur til okkar. Við vorum síðan fljótir að ná samkomulagi við Roskilde og því ljóst að hann verður leikmaður okkar á ný. Við höfum lagt mikið í liðið okkar í vetur og ljóst að það verður alvöru samkeppni um markmannsstöðuna eins og aðrar stöður í liðinu.“
Björn segist vonast til þess að Ögmundur verði hluti af þeirri samkeppni en ómögulegt sé að segja til um á þessari stundu hvernig það muni þróast. Hann minnir fólk á leikinn gegn Víkingum á mánudagskvöldið undir ljósunum að Hlíðarenda þar sem boðið verði upp á frábæra umgjörð fyrir stuðningsfólk Vals.
Við bjóðum Frederik Schram og fjölskyldu hjartanlega velkomin aftur í Val.