Bræðurnir Jökull og Axel Óskar Andréssynir voru eðlilega í stuði eftir fyrsta sigur Aftureldingar í efstu deild karla, en hann kom gegn Víkingi í gær.
Lokatölur urðu 1-0 og áttu þeir báðir flottan leik, Jökull í markinu og Axel í hjarta varnarinnar.
„Mér gæti ekki liðið betur. Maður er búinn að bíða ótrúlega lengi eftir þessu augnabliki. Að halda hreinu og vinna þetta ótrúlega Víkingslið er hreint út sagt frábær,“ sagði Axel við Stöð 2 Sport eftir leik, en Jökull mætti svo inn í viðtalið.
„Ég elska hann, og það er það sem við gerum. Það er það sem bræður gera. Hann vann svona milljón skallabolta til að bjarga okkur,“ sagði hann, en þetta má sjá hér að neðan.
Báðir gengu þeir í raðir Aftureldingar í sumar. Axel kom frá KR en Jökull úr atvinnumennsku, þó hann hafi að vísu verið á láni í Mosfellsbænum er liðið fór upp úr Lengjudeildinni í fyrra.