Guðmundur Magnússon, fyrirliði Fram, sagði í viðtölum eftir tap gegn ÍBV í gær að um hafi verið að ræða leiðinlegasta leik sem hann hefur spilað á ferlinum.
ÍBV vann nokkuð sannfærandi 3-1 sigur á Þórsvelli í Eyjum, en verið er að leggja gervigras á aðalvöllinn, Hásteinsvöll. Það blés vel á leikmenn og áhorfendur í gær og völlurinn sjálfur ekkert til að hrópa húrra fyrir.
„Ef þetta var hugarfarið fyrir leik er ekki skrýtið að þeir hafi tapað,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason um ummæli Guðmundar í viðtalinu í Þungavigtinni. Kristján Óli Sigurðsson tók undir þetta. „Þetta var athyglisvert viðtal. Þeir nenntu þessu ekki fyrir sitt litla líf.“
Kristján sagði þó að vallaraðstæður hafi alls ekki verið til fyrirmyndar. „Þetta á ekki að vera boðlegt, en þeir eru að leggja gervigras á Hásteinsvöll svo við gefum þeim smá slaka.“
Fram er með 3 stig eftir jafnmarga leiki í Bestu deildinni en ÍBV er með stigi meira.