Það er útlit fyrir að Dean Huijsen, varnarmaður Bournemouth, verði einn eftirsóttasti leikmaður félagaskiptagluggans í sumar.
Spánverjinn, sem er fæddur í Hollandi, hefur verið orðaður við lið eins og Arsenal, Liverpool og Real Madrid í kjölfar frammistöðu sinnar á fyrstu leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni. Independent segir þó nú frá því að hann íhugi alvarlega að samþykkja boð frá Chelsea.
Huijsen, sem er aðeins tvítugur, er með klásúlu upp á 50 milljónir punda í samningi sínum og er Chelsea til í að virkja hana. Þá er sjö ára samningur á borðinu fyrir kappann á Stamford Bridge.
Chelsea tekur þátt á HM félagsliða í sumar og vill helst klára kaupin á Huijsen fyrir þann tíma.