Það kom mörgum á óvart að sjá hver var mætt á Stamford Bridge í vikunni er Chelsea spilaði við lið Legia frá Póllandi.
Engin önnur en söngkonan Madonna sást í stúkunni í þessum leik en hún fylgdist með 2-1 tapi heimaliðsins í Sambandsdeildinni.
Tapið hafði lítil áhrif á Chelsea sem var í mjög góðri stöðu fyrir leikinn eftir 3-0 útisigur í fyrri viðureigninni.
Margir voru hins vegar steinhissa að sjá Madonna í stúkunni á leiknum og veit í raun enginn af hverju hún var á staðnum.
Madonna er heimsfræg söngkona og gerði garðinn frægan fyrir þónokkrum árum síðan en hún hefur áður sést á knattspyrnuleikjum.
,,Ég trúi ekki að Chelsea sé að tapa þegar Madonna sjálf er að horfa á leikinn,“ skrifar einn á X eða Twitter og tóku fleiri undir þau ummæli enda óafsakanlegt tap hjá þeim ensku.