Það eru meiðslavandræði í vörn Arsenal og mikilvægir leikir framundan gegn Real Madrid í Meistaradeildinni.
Arsenal vann 2-1 sigur á Fulham í gær. Mikel Merino og Bukayo Saka skoruðu mörkin, en sá síðarnefndi var að snúa aftur eftir nokkurra mánaða meiðsli.
Skytturnar urðu þó fyrir áfalli í gær þegar miðvörðurinn Gabriel þurfti að fara af velli vegna meiðsla aftan á læri eftir aðeins stundarfjórðung. Þá þurfti Jurrien Timber að fara af velli í seinni hálfleik sömuleiðis.
„Við vitum ekki hvað verður með þá. Við skoðum þá á morgun og reynum að átta okkur betur á stöðunni. Þetta eru leikmenn sem vilja aldrei fara út af,“ sagði Mikel Arteta, stjóri Arsenal, eftir leik í gær.
Ricardo Calafiori meiddist þá í landsleikjahléinu með Ítalíu og þá kom bakslag í endurkomu Ben White á völlinn.
„Þið getið ímyndað ykkur hvernig mér líður með að missa þessa fjóra í einn viku. En við höfum enn fjóra til viðbótar sem eru meira en til í að stíga upp,“ sagði Arteta.
Arsenal mætir Real Madrid á þriðjudag í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Seinni leikurinn fer fram átta dögum síðar.