Líkurnar á að Viktor Gyokeres fari til Manchester United í sumar fara minnkandi ef marka má enska miðla í dag.
Sænski framherjinn hefur raðað inn mörkum fyrir Sporting í Portúgal og verið orðaður við mörg af stærstu liðum heims.
United er þar á meðal, en Ruben Amorim stjóri liðsins þekkir Gyokeres vel frá því hann var hjá Sporting.
Það er hins vegar ólíklegra að Gyokeres endi á Old Trafford. Spilar þar inn í að United er hikandi við að ganga að háum verðmiðanum sem Sporting hefur sett á hann.
Þá má búast við því að samkeppnin um hann verði hörð eftir að Arsenal setti Gyokeres efstan á sinn óskalista í kjölfar þess að Andrea Berta var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála þar á bæ.
Nú er talið líklegra að United snúi sér að Liam Delap, framherja nýliða Ipswich. Hann er fáanlegur á 40 milljónir punda í sumar ef liðið fellur, sem allt stefnir í, vegna klásúlu í samningi hans.
Delap gekk í raðir Ipswich frá Manchester City síðasta sumar og hefur skorað 10 mörk í ensku úrvalsdeildinni í fremur slöku liði.