Faðir Alexis Mac Allister, leikmanns Liverpool, hefur gefið í skyn að leikmaðurinn sé alls ekki á förum frá félaginu, þrátt fyrir kjaftasögur um áhuga Real Madrid.
Miðjumaðurinn hefur heillað hjá Liverpool og hefur verið fjallað um að Real Madrid horfi til hans. Þá má þó búast við að kappinn verði áfram hjá Liverpool ef marka má orð föður hans, Carlos.
„Þetta er ekkert til að tala um. Alexis er mjög sáttur hjá Liverpool, er með samning hér og vill vinna hluti,“ segir Carlos.
„Það er mikilvægt að virða félagið sem þú spilar fyrir, svo það er algjör óþarfi að ég tjái mig um þetta.“
Mac Allister er 26 ára gamall og gekk í raðir Liverpool frá Brighton fyrir síðustu leiktíð. Hann er samningsbundinn í rúm þrjú ár til viðbótar.
Það mun ekkert koma í veg fyrir að Argentínumaðurinn verði Englandsmeistari með Liverpool í vor, en liðið er langefst í úrvalsdeildinni.