Umboðsmenn um alla Evrópu sem tengjast Real Madrid á einn eða annan hátt eru meðvitaðir um að skipti Vinicius Junior frá spænska stórliðinu til Sádi-Arabíu eru ekki útilokuð.
Florian Plettenberg hjá Sky í Þýskalandi segir frá þessu. Vinicius hefur lengi verið orðaður við Sádí en sjálfur alltaf talað um að vilja vera áfram hjá Real Madrid.
Sádarnir hafa undanfarin ár reynt að stækka deild sína og tekist að fá inn ansi stór nöfn til þess. Að fá Vinicius myndi þó taka allt upp á næsta stig og segir Plettenberg að kaupverð og laun í tengslum við hugsanleg skipti yrðu á mælikvarða sem aldrei hefur sést áður í knattspyrnuheiminum.
Þó ólíklegra sé að Brasilíumaðurinn fari til Sádí er Real Madrid klárt með þann leikmann sem það myndi hjóla í ef ske kynni að það gerðist, Erling Braut Haaland hjá Manchester City.
Haaland hefur reglulega verið orðaður við Real Madrid, allt frá því áður en hann fór til Manchester City fyrir þremur árum síðan. Hann er hins vegar samningsbundinn í Manchester í níu ár til viðbótar og ljóst að stjarnfræðilega upphæð þyrfti til að landa honum.