Markadrottningin sjálf Elín Metta Jensen hefur skrifað undir samning við Knattspyrnudeild Vals. Um er að ræða 1 árs samning með möguleika á árs framlengingu hjá þessum þrítuga framherja sem leikið hefur 189 leiki í efstu deild og skorað í þeim 134 mörk. Þá á hún 62 A-landleiki fyrir Ísland og skorað í þeim 16 mörk.
„Það er auðvitað mikið gleðiefni fyrir okkur Valsara að fá Elínu Mettu til okkar á ný. Hér er hún uppalin og hefur heldur betur staðið sig vel fyrir félagið. Hún hefur verið að æfa með okkur upp á síðkastið og er komin ótrúlega langt miðað við hversu stutt er síðan hún átti sitt fyrsta barn. Það verður gaman að sjá hana í Valsbúningnum í sumar,“ segir Styrmir Þór Bragason varaformaður knattspyrnudeildar Vals.
Sjálf er Elín Metta í skýjunum með að vera komin aftur í Val en hún lék síðast með liðinu árið 2022.
„Ég er mjög ánægð með að vera komin aftur heim á Hlíðarenda. Það er margt spennandi í gangi í klúbbnum og leikmannahópurinn er mjög öflugur með góða blöndu af reynslumiklum og efnilegum leikmönnum. Ég hlakka til að leggja mitt af mörkum,“ segir Elín Metta Jensen leikmaður Vals.