Það er óhætt að segja að sparkspekingurinn Kristján Óli Sigurðsson hafi ekki verið hrifinn af liði KA í leiknum gegn Víkingi í Bestu deild karla í gær.
Víkingur vann þægilegan 4-0 sigur í leiknum og er KA með 1 stig eftir fyrstu tvo leiki deildarinnar.
Hallgrímur Jónasson þjálfari KA var þó ekki of neikvæður er varðaði spilamennsku hans manna í gær.
„Hallgrímur fór í afsakanaleikinn eftir leik í að ég held 900. skiptið. Þeir hafi spilað ágætlega úti á vellinum og blabla. Þeim var pakkað saman og eiga ekki breik í þessi bestu lið á Íslandi í dag,“ segir Kristján Óli hins vegar í Þungavigtinni.
Talið er að Marcel Römer, fyrirliði Lyngby, sé á leið í KA en Kristján segir að það þurfi meira til.
„Þeir eru að fá fyrirliða Lyngby. Ég held þeir þyrftu að fá fyrirliða FCK, Bröndby og Nordsjælland líka til að eiga eitthvað erindi í þessa deild.“