Styrmir Sigurðsson, stjórnandi hlaðvarpsins Handkastsins, var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Það var rætt um íslenska kvennalandsliðið í handbolta, sem pakkaði Ísrael saman í umspili um sæti á HM í tveimur leikjum á Ásvöllum í vikunnni. Leikurinn var mikið í fréttum en ekki fyrir handboltann sjálfan heldur málefni utan vallar, nánar til andstæðinginn okkar.
Einhverjir eru á því að íþróttamenn eigi ekki að spila við Ísrael vegna átakanna á Gasa. Var landsliðið til að mynda hvatt til að spila ekki leikinn og sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari einnig að þær hefðu fengið það óþvegið fyrir að mæta í leikina.
„Við höfum séð þetta oft áður, að fólk setji pressu á íþróttafólk og hvetja það til að mæta ekki til leiks. Við sáum þetta þegar karlalandsliðið í fótbotla mætti Ísrael í umspilinu í fyrra og þegar Breiðablik mætti Maccabi. Þetta virðist vera lausnin hjá mörgum, að setja þetta í hendur íþróttamanna. Verðum við ekki að óska eftir smá smá standard í umræðuna?“ sagði Helgi, áður en Hrafnkell tók til máls.
„Oft á tíðum er þetta fólk sem fylgist ekki mikið með íþróttum og hefur ekki mikið vit á þeim. Þau átta sig ekki á því að ef liðin mæta ekki til leiks fá þau sekt frá samböndunum og er bannað að mæta til leiks í einhvern tíma á eftir, handknattleikssamband Evrópu í þessu tilfelli. Það eru ekki stelpurnar í landsliðinu sem eiga að taka ákvörðun um þetta, það er EHF. Þau þurfa að ákveða hvort eigi að meina Ísrael að taka þátt eins og gert var í tilfelli Rússa. Að setja þetta í hendurnar á stelpunum og ásaka þær er náttúrulega galið. Ég þekki einhverjar þarna og þetta eru frábærar manneskjur. Að segja að þær séu að styðja við þjóðarmorð með því að spila þessa leiki er bara mesta þvæla sem ég hef heyrt í lífi mínu.“
Styrmir segir umræðuna eiga að snúa að því að Ísland hafi verið að komast á stórmót. „Þær eru bara að keppast um að komast á HM, stórmót, og drógust á móti Ísrael. Þær geta ekkert að þessu gert. Þetta á bara að beinast að einhverjum pólitíkusum, ekki handboltakonum.“
Nánar í spilaranum.